laugardagur, 2. desember 2006

ljosin i bænum

á föstudögum er opið til sjö a borgarbókasafninu. Í tilefni þess rölti ég niðreftir, kíkti á jólaútstillingar í gluggum Blómálfsins og Kirsuberjatrésins og tók mér bækur, geisladiska og dvd myndir. Það er nú kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað, fólkið sem veitti mér þessa andagift tengir sjónvarpið sitt ekki í desembermánuði. Held þau hafi samt vídeó tæki og dvd tengt. Ég get ímyndað mér að synir þeirra 2 og þau sjálf eyði ekki óþarfa orku í það að undirmeðvitundin meðtaki áreiti auglýsinganna og þess kauphlaups sem gnæfir yfir borginni í þessum mánuði. Svo ekki sé minnst á auglýsingabæklinganna sem berast inn um lúguna.

Maðurinn er oft talinn hópsál. Að honum finnist gott að tilheyra. Mér finnst það líka. En mér finnst betra að tilheyra því að geta notið myrkursins og ljósanna án þess að þurfa að spreða sand af peningum. Sem ég á svosem ekki, en bankinn minn lætur það nú ekki hindra sig í að bjóða mér fullt af dýrum peningum í formi t.d. kreditkorta og yfirdrátts.

Auðvitað eyði ég líka pening í desember, jafnvel meiri heldur en hina mánuðina. Mér finnst gott að hafa gómsætan mat og drykk á borðum, jafnvel betra kaffi en vanalega. En ég tengi það aðallega góðum dýrmætum samverustundum með fólkinu sem mér þykir vænt um og skiptir mig máli. Að nostra svona við sig í desember tengi ég líka þeim þyngslum sem myrkrið ber óneitanlega með sér. Þessi smáatriði gleðja mig.

Mér finnst líka gaman að gleðja aðra á jólunum, þá með einhverju sem ég ræð við að gefa bæði fjárhagslega og andlega, þ.e. að einhver hugsun liggi að bakvið gjöfinni, samverustundinni eða jólakortinu. Ég kæri mig samt síður um að gjöfum mínum sé stjórnað af kaupmætti landans, jólaversluninni hjá stórfyrirtækjum og sálfræðilegum markaðshernaðinum.

Desemberinn minn verður tileinkaður lestri skáldsagna og jafnvel ævisagna. Eminem ævisagan fékk að fljóta með af bókasafninu í gær. Lærdómurinn gengur eðlilega fyrir framyfir næstu helgi. En hvenær er notalegra að kósast með bók en þegar úti er dimmt og kalt? Róleg í klisjurnar. Ljósin eru komin upp. Góðar stundir.

2 ummæli:

Hrefna sagði...

Góðar stundir til þín líka, þetta kom mér í smá jóla/kósý gír. Er að hita kakó.

baba sagði...

sammála sammála sammála...skál fyrir góðum bókum og heitu súkkulaði...