mánudagur, 22. janúar 2007

manudagur

Í dag hækkar fullorðinsfargjald strætó upp í 280 krónur. Það eru næstum 2 lítrar af bensíni. Eins og gestgjafinn í Kópavogi benti á þá undrar maður sig á því hvernig Akureyri getur boðið ókeypis í strætó. Hópur fólks hélt í ævintýraferð upp í Kópavog í gær í strætó. Það var gaman. Börn og bakkelsi.

Hljómsveitin Sólstafir hélt tónleika í Nýló á laugardaginn. Þar var nettur sviti í gangi og hljómsveitarmeðlimir allir með þétt skegg. Söngvarinn sem er líka gítarleikari notaði hljóðfærið óspart sem framlenginu karlmennskutákns síns. Í rokkinu hefur kynímyndin snúist við að sumu leyti. Í samfélagi okkar er það konan sem er kynímyndin og er sett fram sem hlutur sem menn girnast. Rokkið er karllægur heimur þar sem konur eru í minnihlutahóp. Uppi á sviði eru þeir miðpunkturinn, hluturinn sem áhorfendur sjá og þrá. Þannig eru karlkyns-rokkarar orðnir að n.k. kynímynd uppi á sviði. Í framhaldi af því er ég að spá í því hvernig androgyny hefur verið í ,,tísku" að undanförnu. En bæði hafa konur sótt fram í rokkinu og ímyndin af indí-rokkaranum er oft (barnalegur) skegglaus maður /strákur (kannski með hýjung). Á tónleikunum á laugardag var spiluð heví-metal-rokktónlist. Þar virtist andinn annar og karlmennskan sveif yfir vötnunum. Tónleikarnir voru ágætir, en meira þótti mér koma til sýningarinnar sem er í gangi í safninu og gólfsins sem er þakið góðu lagi af ójafnri niðurþjappaðri mold sem gerir hljómburðinn í Nýló mun betri og mjúkhart undirlagið gerir það að verkum að það er átakslaust að standa í góðan tíma, stappa fætinum og hrista hausinn í takt við hraða tónlistina.

Það er tekið að dimma, ný vika framundan. Undanfarið hefur staðið yfir leit að eldhússtólum. Búið er að þræða helstu húsgagnaverslanir bæjarins þar sem útsölur og kostakaup eru aðalatriðið. Vandinn er að þrátt fyrir þessa ítarlegu leit höfum við ekki komist að niðurstöðu né fundið stóla sem sameina alla þá þætti sem leitað er að. Það pirrar mig. Stólarnir hennar ömmu voru fluttir inn fyrir fjörutíu árum, 1947, og enn eru þeir stöðugir og fínir. Nú væri ráð að hafa skemmu úti í garði, fullbúna smíðatækjum þar sem maður gæti sleppt sér og hent í fjóra stóla eða svo.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl mín kæra.
Ákveðið var að hafa mannfræðihitting á miðvikudögum klukkan 16 í Kaffitári á Þjóðminjasafninu (held ég, er það ekki örugglega opið þá?). Sjáumst vonandi næsta miðvikudag :)