Í morgun tók ég sérstaklega eftir því að vetur og sumar fraus saman, enda frosinn pollurinn úti á götu. Hélt af stað í sumargleðiyoga sem endurskapar mig, mótar mig og viðheldur mér... smá frasi úr ritgerðinni sem á í raun við um svo margt í samfélaginu eins og valdið sjálft sem er erfitt að koma auga á.
Í ritgerð er þetta helst: Fyrst í dag, auðvitað á sumardaginn fyrsta, sá ég fram á þann möguleika á að klára fyrir settan skiladag, 4. maí. Held þetta verði bara skemmtileg ritgerð allaveganna fyrir þá sem hafa áhuga á menningu og tónlist og konum. Og það eru nú margir. Sendi leiðbeinandanum seinasta kaflann með bros á vör og vona að hann gangi upp þó ég vænti þess að þurfa að gera smávægilegar leiðréttingar. Þá á ég eftir að gera inngang, lokaorð og laga. Laga og láta lesa yfir. Betur sjá augu en augu og þegar ég er orðin svona niðursoðin í dós með ritgerðinni þá er soldið erfitt að sjá það sem betur má fara.
Held að lagið eigi eftir að taka mestan tíma. En ég hef ákveðið að þessi ritgerð er afrakstur ákveðinnar vinnu á ákveðnum tíma og því mun hún bera þess merki að sjálfsögðu í góðum skilningi. Eftir að ég skila henni á ég ábyggilega eftir að hugsa, oh ég hefði átt að gera svona og hinsegin. Og það er bara ok.
Nú. Nafngift verksins veldur mér höfuverk. Eða ég ímynda mér að það eigi eftir að gerast. Hef ekki einu sinni hugsað út í það nýlega, en þurfti að láta vinnutitil á umsóknir hér fyrr á önninni. Þá hljómaði vinnutitillinn ég man það ekki.... úbs. ,,Ef ég væri strákur...": jaðartónlistarkonur í Reykjavík. Best bara að fá engan höfðuverk og finna titil eða nota þennnan. Kannski er hann ekki nógu lýsandi... hvað finnst þér?
Að öðru: þá skín sólin á mig og klukkan er átta. Myrkvunargluggatjöld eru ekki til staðar í þessu húsi og útlendingurinn er strax farinn að þjást á nóttunni vegna birtu. Það væri ráð að blanda svefnlyfi út í nightcap-inn, nú eða grafa upp eldgömul svefngleraugu af Saga Class frá því þegar ég var á leið út í lönd vegna business.
Í gær var mikið húllumhæ í Boston þegar brósi spilaði útskriftartónleikana sína þar í borg. Til lukku elsku Doddi. Ekki amalegt að vera tónlistarmeistari. Spurningin er hvað maður gerir við þannig lagað?
Come on, I´ll buy you a drink... er ein af uppáhaldssetningum mínum úr Dallas en það getur átt við að fá sér drykk heima á Southfork. Einu sinni vildi ég eiga heima þar. Ekki lengur. Fer kannski einhvern tímann í heimsókn en margar útisenurnar fyrir utan Southfork voru teknar upp í stúdíói sökum mikils vinds á svæðinu.
fimmtudagur, 19. apríl 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli