þriðjudagur, 29. apríl 2008

Les Jardins des Mandarines

Það var dimmt úti og ljós borgarinnar lýstu upp hafflötinn. Klettarnir við höfnina voru dimmir og tignarlegir. Við sátum afturí og bílstjórinn keyrði okkur tvö, ástfangin sem aldrei fyrr, um borgina. Ég vissi að ég þurfti að fara ein af stað og bað bílstjórann um að láta mig út. Ákveðið var að við myndum hittast aftur á sama torgi eftir skamma stund. Ég hélt af stað og fór m.a. inn í einnar hæðar verslunarmiðstöðvar sem voru mjög gamaldags með gömlum vörum í. Þar var margt um manninn. Þegar líða tók á drauminn fann ég að ég þyrfti að fara að finna leiðina á torgið til að hitta sambýlinginn/ástmann minn í bílnum hjá bílstjóranum. Það gekk ekki vel. Ég leitaði út um allt að torginu en án árangurs. En var mikið af fólki sem ég mætti í þessum gömlu verslunum á meðan ég var að leita að torginu. Að lokum fann ég lögregluþjón sem ég var sannfærð um að gæti hjálpað mér. Við hann talaði ég frönsku eins vel og ég gat, enda komst ég að því þegar ég talaði við hann að ég væri stödd í borginni Les Jardins des Mandarines. Lögreglumaðurinn gat ekkert hjálpað mér. Ég vissi að ég yrði að finna torgið og komast burt, því á morgun, klukkan 13:30 var áformaður fundur. Fundur þar sem ég myndi hitta manninn sem aðrir höfðu ákveðið að ég ætti að giftast.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hmmm...var þetta draumur? Varstu hrædd? ótrúlega spennandi, minnir mig á ástarsögurnar sem ég sökkti mér í á ákveðnu tímabili...samt aðeins fágaðri texti þó ástarsögur geti nú verið fágaðar, allavega þær sem ég las :). Ekki rauða serían sko :)
Kveðjur úr norðansólinni í Garðinum

AnnaKatrin sagði...

já þetta var draumur. Mér leið ekki vel eftir því sem líða tók á drauminn og sérstaklega þegar ég fann ekki torgið. Vaknaði semsagt soldið stúrin og fannst glatað að ég ætti ekki að giftast alvöru ástmanni mínum, heldur að einhver annar ætti að ákveða hverjum ég ætti að giftast.

Talandi um Rauðu seríuna, þá lá ég í henni frá 11 - 14 ára aldri í sveitinni. Örlagasögurnar og sjúkrahússöguflokkarnir voru mínir uppáhalds. Þvílík kennsla í fræðum ástarinnar! Hins vegar fékk ég aldrei að kynnast Barböru Cartland né Danielle Steel.

Friður.

baba sagði...

jebb rauða serían í sveitinni...sama hér...alger dónaskapur...man sérstaklega eftir örlagasögunni þar sem konu var mannrænt en varð svo ástfangin af mannræningjanum...vúúú....haha....en þetta er rosalegur draumur! skil vel að þú hafir verið stúrinn þegar þú vaknaðir...en ég tek eftir að niðurstaða er ekki fengin í drauminn...þú ert ennþá að leita að torginu og staðráðinn í að finna það fyrir morgundaginn....ef þetta væri rauða serían myndirðu pottþétt finna torgið á síðustu stundu og allt endar vel:)