föstudagur, 18. apríl 2008

Göngutúr í kreppunni

Í mömmuklúbbnum sem haldinn var hérna heima í fyrradag var mér litið yfir stofuna og sá 20 fallega einstaklinga haldandi á snuddum og bleyjum. Hugurinn bar upp svipaða mynd af góðu fólki í stofunni okkar fyrir um ári síðan haldandi á bjór og sígó.

Á horninu á Snorrabraut og Laugavegi voru 2 bílar á rauðu ljósi fyrr í dag. Allt í einu heyri ég dynk og lít við og sé þá stóran ruslapoka liggja á götunni. Innkaupapoka fullan af rusli, drykkjarumbúðum og slíku. Ljósið verður grænt og bílarnir keyra í burtu. Ég veit ekki úr hvorum bílnum ruslið kom, hneykslaðist mjög af vanvirðingu fólks við umhverfið. En kannski er þetta ekkert verra en að henda sígarettustubb út um bílglugga? Fattaði síðan að ég hefði gleymt spæjaramerkinu heima, því ég gleymdi að taka niður bílnúmerin og hringja og kvarta... já hvert hringir maður og kvartar yfir svona löguðu....? Ein sem hefur nógan tíma á höndum sér þessa dagana.

Við gamla útvarpshúsið á Skúlagötu sem nú hýsir Sjávarútvegsráðuneytið hitti ég eldri mann. Hann kom akandi á stóra jeppanum sínum, sá mig með vagninn, keyrði upp á gangstétt og lagði bílnum þar. Þvert í veg fyrir gönguleið mína. Hann vippaði sér út og spurði eitthvað á þá leið hvort hann væri fyrir mér. Já, svaraði ég og sagði það hættulegt að fara út á götuna með vagninn. Hann svaraði því til að jú, verðmætin í vagninum væru mikil, en umferðin væri lítil og því gæti ég nú alveg skotist fram fyrir bílinn á götunni....

Annars þýtur tónlistarhúsið upp. Það verður spennandi að sjá hverjir fá þar inni. Verður skilum há- og lágmenningar viðhaldið, eða fá allir aðgang að húsinu til tónleikahalds? Síðan má líka vera að húsið bjóði ekki upp á það andrúmsloft sem margir kjósa og verði of sterílt með hörðum útúrnýtískulegum plastsætum.

Þrátt fyrir þessa viðburði dagsins í dag, var dagurinn ljúfur og góður. Ég er södd og sæl.
Já kreppan.

2 ummæli:

Nikki Badlove sagði...

...kreppan smepppan...ég er glö að þú ert södd og sæl...fólk er fífl og fólk er frábært...mér finnst þú vera frábært fólk....ást og friður...

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir innlitið í dag kæru mæðgur...fattaði að krukkurnar urðu eftir í skápnum mínum og sömuleiðis snuðið sem gleymdist síðast en það þýðir bara að þið komið aftur í heimsókn...Kannski maður plani morgunbæjarferð til þín einhvern daginn, það væri nú upplivelsi að ganga um í borginni til tilbreytingar...hafkveðjur héðan til ykkar, held hann sé að fara að rigna...kv. Særún og co