miðvikudagur, 28. maí 2008

Draumur og veruleiki

Í skjóli nætur gekk fréttamaðurinn Helgi Seljan framhjá húsinu og henti dauðum lunda upp á þak áður en hann fór inn í næsta hús.

Nú í morgun hófu þakviðgerðarmennirnir viðgerð á þakinu.

sunnudagur, 25. maí 2008

Eru sunnudagar framtíðin?

Sunnudagar eru svo ljúfir. Sérstaklega þegar sólin skín. Þessi tími ársins þegar sólin er komin á kreik og gróðurinn að lifna, túlípanalaukarnir blómstra og hlussubýflugurnar suða er æði. Þá finnur maður sig vakna, lundina léttast og líkaminn lifnar við. Framkvæmdagleðin tekur völdin og þessi aukaskammtur af krafti sem maður á eftir að búa við fram að hausti fær sín notið.

Fyrsta heimsóknin mín á Listahátíð var í dag á sýningu í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg var í dag. Þar mætti myndlistin arkítektúr á framandi máta. Verk hvers listamanns var yfirleitt í stærri kantinum þegar kemur að myndlist, heilu rýmin og hvergi var að sjá för pensils. Þarna mátti sjá kertaloga skapa fjórfalda birtu í dimmu rými, rólur hangandi úr lofti heils salar sem mann langaði að róla í væri það ekki fyrir skírskotunina í kynlífsrólur hverskonar, sexfalt vídeóverk sem mátti einungis skoða í bláum skó-plasthlífum skoðaði hringformið og iðandi uppsprettur sem minntu á landslag reikistjarnanna, endalaus ranghali í niðamyrkri til þess að kynnast/ögra sjálfum sér? auk annarra smærri verka. Lillablábleiki álskúlptúrinn var einnig heillandi.

Hér er tækifærið til að óska landsliðskonunni í fjölskyldunni til hamingju með stúdentsprófið. Veislan í gær vatt huga mínum aftur um 10 eða 11 ár í mína eigin stúdentsveislu og í minningunni var ein vinkona mín sett í það að fá einn bjórkassa lánaðan úr bílskúrnum fyrir meira partý seinna um kvöldið. Mér fannst það sniðug hefð svo að í gær fékk ég að vísu bara 2 bjóra lánaða í nesti á leiðinni heim. Takk fyrir mig. Hvað gerir maður ekki í kreppunni?

Þá hækkar bensínið stöðugt. Svo mikið að manni finnst hálfblóðugt að setjast upp í bifreið. En á morgun eru einmitt 40 ár síðan hægriumferð tók við að vinstriumferð. Þá þurfti að panta inn nýja strætisvagna með dyrnar réttu megin. Mun Reykjavíkurborg einhvern tímann fá rafmagnslestar eða aðra gerð af almenningssamgöngum sem eru skilvirkari? Hvenær komum við til með að fljúga loftförunum okkar á milli staða? Hvenær er framtíðin?

Á sunnudögum vökva ég blómin. Einhverra hluta vegna finnst mér ekki við hæfi að vökva þau á kvöldin. Þess vegna þurfa þau að bíða með að fá að drekka þangað til í fyrramálið. Sem er framtíðin. Kannski get ég bara haft alladaga sem sunnudaga. Þá væru sunnudagar alltaf framtíðin.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Allt gott í kringum okkur

Ætli það rigni í nótt? hugsaði ég nú rétt í þessu út á svölum. Gróðurinn hefur tekið stakkaskiptum og maður sér mun á trjánum næstum því á hverjum degi. Ómar úr Hafnarhúsinu berast í kvöldgolunni, líklega Amiina og Kippi að gera listaverk á Listahátíð. Það var hálfgerð listahátíð hér þegar tengdafjölskyldan bjó í íbúðinni. Fá orð fá því lýst hversu vel okkur gengur að eyða tíma saman, en ég er ótrúlega heppin með að þekkja svona gott fólk og fá að vera í návígi við það. Kannski er það einmitt málið, en oft hef ég hugsað að fjarlægðin geri samband okkar líka svona gott. Amma og afi Sophie, ásamt tveimur frábærum föðurbræðrum. Einn með óbilandi áhuga á leiklist og hinn á leið í listir lækninganna. Gæðagaurar sem fóru á tvenna tónleika hjá stóra bróður og annar lét þau orð falla að hann trúði því hreinlega ekki að bróðirinn væri pabbi, en að á sama tíma væri það frábært. Einn Gullni hringur nægði þeim út fyrir borgarmörkin en annars var tíminn vel nýttur í almennt hangs og vöffluát. Þá var einnig dýrleg máltíð á Sjávarkjallaranum þar sem allt var klárað upp til agna. Ekki veit ég hvort skammtarnir voru smáir, allir svona hungraðir eða maturinn svo góður að maður gat hreinlega ekki sleppt því að borða aðeins meira. Eflaust sambland af þessu öllu.

Mér finnst tíminn líða svo ógurlega hratt að næstu þrír dagar verða tileinkaðir öndun. Ekki öndum. Heldur öndun til að fanga augnablikið, senda góða orku í ýmsar óskir, vera auðmjúk og þakka, lofa loftið, borða, elska og vera úti í náttúrunni. Til að það gerist mun The Red Thunder, einn af nýjustu fjölskyldumeðlimunum færa okkur nær takmarkinu. Hér má sjá hana hvíla sig úti á götu


Vona semsagt að það rigni fyrir grasfræin sem ég sáði í jörðina, eftir að tengdafaðir Wilfred var búinn að stinga hana upp.

Þrjár Basilikum plöntur gróðursetti ég að undirlagi Garðyrkjubóndans, eina fyrir hvert okkar hér í nýju fjölskyldunni.

föstudagur, 9. maí 2008

Music for Marimba, Guitar, Decks, Drums and Choir
eftir Alex MacNeil

Útskriftartónleikar úr tónsmíðadeild nýmiðla LHÍ
Sunnudaginn 11. maí, kl. 21:00 í Iðnó.
Aðgangur ókeypis, allir velkomnir.


Verkið fjallar um tengsl manneskjunnar við guð í tilefni Hvítasunnudags og Shavuot.
Flytjendur verksins eru samansafn af tónlistarfólki, m.a. úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og 2 rokkhljómsveitum.

Flytjendur eru:
Alex MacNeil,
Arnar Ingi Viðarsson,
Eggert Pálsson,
Frank Aarnink,
Gísli Galdur,
Gylfi Blöndal,
Kári Halldórsson,
Kjartan Bragi Bjarnason,
Kjartan Guðnason,
Kolbeinn Hugi Höskuldsson
ásamt kór sem Hreiðar Ingi Þorsteinsson stjórnar.

sunnudagur, 4. maí 2008

Sveitt á sunnudegi

Í kvöldgöngunni sá ég laufin spretta og grasið grænka.
Mikill léttir að vera búin að fá pabbann heim þó það hafi verið nokkuð átakalaust að vera einstæð móðir í viku, þá var alveg kominn tími á það að fara ein út að ganga. Respect til einstæðra foreldra.

Það er enn pínku skrítin tilfinning að vera orðin kona með framlengingu, mamma móðir magga móða. Styrkt verða fjölskyldubönd í komandi viku þegar kanadíska fjölskyldan mætir á svæðið. Afinn og amman og 2 frændur. Tengdafjölskylda mín. Fjölskyldubönd og tengingar geta verið skrítnar, tilfinningaríkar, flóknar og síðan auðvitað ekki fyrir hendi. En það er umfram allt skemmtilegt að hitta þetta fallega fólk og ég hlakka til. Líka hlakka ég til útskriftartónleika tónsmiðsins í Iðnó eftir viku, 11. maí klukkan 21. Þér er boðið.

Best að þrífa ælu.
Sunnudagur til sælu.

föstudagur, 2. maí 2008

Frúin spæjar á föstudegi

Eftir hreinsunina sem átti sér stað í rokinu fyrir nokkrum dögum er yndislegt að fara út. Á leiðinni heim í dag tók ég eftir að búið var að koma 3 grjóthnullungum fyrir í götunni minni þar sem áður lögðu bílar. Þarna var maður að sýsla og mála yfir veggjakrot svo ég spurði hann um grjótið sem er fyrir framan eitt af elstu húsunum í Reykjavík, Vaktmannskofann. Ekki vissi hann hvað fólk hefði vaktað í kofanum. Við spjölluðum aðeins meira og að lokum kvaddi ég og óskaði ég honum góðs dags og hann svaraði til, ,,sömuleiðis frú”. Þá veit ég það, maður er orðin frú. Líklega fyrst ég fylli þrjá tugi.

Þegar við S. nálguðumst síðan húsið okkar rann lögreglubíll í hlað. Út stigu 2 lögregluþjónar og gengu að húsinu á móti. Ég þaut upp eins og vindurinn til þess að missa ekki af neinu enda alkunnur spæjari. S. lét sér fátt um finnast og hélt áfram að sofa.

Lögregluþjónarnir litu á nokkrar hurðir hússins til þess að finna réttu hurðina. Þegar hún var fundin bankaði kk. löggan (sem keyrði líka löggubílinn) með hinum frægu orðum: ,,opnið, þetta er lögreglan”. Enginn svaraði og næsta skref var það að fá lykil hjá nágrannanum sem stóð hjá og fylgdist með aðgerðum lögreglunnar. Seinna í ferlinu ímyndaði ég mér að það hefði verið hún sem hringdi á lögregluna. Og þá vatt lögreglan sér í það að berja með hnefanum á hurðina, og segja: ,,Opnið þetta er lögreglan að koma inn með lykli”.

Hér verður hlé gert á þessari æsispennandi frásögn. Í fyrsta lagi því ég fór í sturtu og missti því aðeins af sjónarspilinu. Á meðan sambýlingurinn spilar fyrir Belgíu reyni ég að hoppa í sturtu hvenær sem færi gefst og sérstaklega þegar S. sefur. Í öðru lagi vegna þess að þessi nágrannaíbúð á sér forsögu skv. dagbókum spæjarans sem eyðir langtímum út við gluggann með ber brjóst.

Ég man eftir tveimur íbúum umræddrar íbúðar. Fyrrverandi íbúinn var miðaldra maður sem hélt nokkuð mörg partý. Ekkert til að amast yfir enda hinum megin við götuna. Mannfjöldinn var nokkur í þessum partýum og misjafnir karakterar.
Maðurinn var ávallt nokkuð blautur og lét sambýling minn óspart vita hversu góð hljómsveit Grateful Dead var. Nú má hitta þennan ágæta mann í góðu veðri á Austurvelli við hliðina á Lalla & co.

Núverandi íbúi íbúðarinnar er búin að vera í burtu í nokkurn tíma. Hún virðist búa þarna ein en engu að síður hafa margir aðgang og lykla að íbúðinni. Vinir Lalla virðast líka þekkja þessa konu því oft er bankað uppá um miðjan dag með opna bjórdós í hönd og annað slíkt. Þá eru 2 karlmenn með aðgang að íbúðinni og kíkja oft við hvort sem núverandi íbúi er heima eða ekki. Nýlega var einni konu hleypt inn af einum þessara manna, en útgangurinn á henni lét mig hugsa sem svo að hún ætti ekki bað né hrein föt. Kannski eru þetta fyrirframgefnir fordómar í mér um útlit fólks og auðvitað ætti ég ekki að dæma fólkið á útlitinu einu saman. Einn þessara manna kemur við sögu í þessari frásögn sem heldur nú áfram.

Eftir sturtuna var kominn jeppi á staðinn með 2 mönnum í sem voru tíðir gestir í húsinu. Fljótlega fór jeppinn að fyllast með ýmsu dóti úr íbúðinni, helst þá klæðnaði og stórum pokum, og sagði einn maðurinn það vera erfitt að vera heimilislaus og þurfa að bera allt þetta. Því virtist mér sem hann hafi ákveðið að gera þessu heimilislausa fólki greiða með því að geyma þetta dót í íbúð vinkonu sinnar sem hann hafði aðgang að á meðan hún var í burtu. Það fannst mér nokkuð vinsamlegt af manninum en það var greinilega ekki gert með leyfi því annars hefði löggan ekki verið þarna. Einnig datt mér í hug að þetta væri þýfi, en þar sem þetta voru ekki tölvur og skjávarpar, heldur ,,mjúkir” pokar þá útilokaði spæjarinn það fljótt. Kunninginn virtist ekki glaður en sagðist vera bara eðlilegur maður Hann kallaði nágrannakonuna helvítist tík, öskraði og var með ögrandi líkamstilburði við lögregluna. Lögregluþjónarnir héldu sig í ákveðinni fjarlægð og báðu mennina tvo að drífa sig í að fjarlægja dótið úr íbúðinni sem þeir og gerðu. Kunninginn var ekki sáttur við lögregluna og að þurfa gera þetta og hnykkti út með þessum orðum: ,,Þið sem nauðgið heimilislausum konum í klefanum... “

Hér lauk vakt spæjarans en margar hugleiðingar brjótast um eins og: það er gott að einhver vill hjálpa heimilislausum konum með því að geyma dótið þeirra og leyfa þeim að gista í íbúðum annarra. Spurning hvort gjald sé tekið fyrir og þá í hvaða formi? Varðandi fangaklefana hvar heimilislausir þurfa víst oft að gista þar sem þeir fá ekki inni í gistiskýlunum ef þeir eru undir áhrifum (eða svo hef ég heyrt í fréttum), þá finnst mér skrítið að maður fyndi upp á þessari staðhæfingu hjá sjálfum sér án þess að vita til þannig atvika. Að sjálfsögðu getur verið að hann hafi verið svo reiður að þetta hafi verið það ljótasta sem hann hafi fundið upp á á þessari stundu. Nú þegar heimilislausum konum fjölgar stöðugt og Konukot alltaf fullt, er augljóst að eitthvað þarf að gera í málinu.

Það er ráð að enda þennan pistil á því að senda góða orku til allra sem á henni þurfa á að halda. Ást, friður og kærleikur til ykkar allra. Góða helgi.