Eftir hreinsunina sem átti sér stað í rokinu fyrir nokkrum dögum er yndislegt að fara út. Á leiðinni heim í dag tók ég eftir að búið var að koma 3 grjóthnullungum fyrir í götunni minni þar sem áður lögðu bílar. Þarna var maður að sýsla og mála yfir veggjakrot svo ég spurði hann um grjótið sem er fyrir framan eitt af elstu húsunum í Reykjavík, Vaktmannskofann. Ekki vissi hann hvað fólk hefði vaktað í kofanum. Við spjölluðum aðeins meira og að lokum kvaddi ég og óskaði ég honum góðs dags og hann svaraði til, ,,sömuleiðis frú”. Þá veit ég það, maður er orðin frú. Líklega fyrst ég fylli þrjá tugi.
Þegar við S. nálguðumst síðan húsið okkar rann lögreglubíll í hlað. Út stigu 2 lögregluþjónar og gengu að húsinu á móti. Ég þaut upp eins og vindurinn til þess að missa ekki af neinu enda alkunnur spæjari. S. lét sér fátt um finnast og hélt áfram að sofa.
Lögregluþjónarnir litu á nokkrar hurðir hússins til þess að finna réttu hurðina. Þegar hún var fundin bankaði kk. löggan (sem keyrði líka löggubílinn) með hinum frægu orðum: ,,opnið, þetta er lögreglan”. Enginn svaraði og næsta skref var það að fá lykil hjá nágrannanum sem stóð hjá og fylgdist með aðgerðum lögreglunnar. Seinna í ferlinu ímyndaði ég mér að það hefði verið hún sem hringdi á lögregluna. Og þá vatt lögreglan sér í það að berja með hnefanum á hurðina, og segja: ,,Opnið þetta er lögreglan að koma inn með lykli”.
Hér verður hlé gert á þessari æsispennandi frásögn. Í fyrsta lagi því ég fór í sturtu og missti því aðeins af sjónarspilinu. Á meðan sambýlingurinn spilar fyrir Belgíu reyni ég að hoppa í sturtu hvenær sem færi gefst og sérstaklega þegar S. sefur. Í öðru lagi vegna þess að þessi nágrannaíbúð á sér forsögu skv. dagbókum spæjarans sem eyðir langtímum út við gluggann með ber brjóst.
Ég man eftir tveimur íbúum umræddrar íbúðar. Fyrrverandi íbúinn var miðaldra maður sem hélt nokkuð mörg partý. Ekkert til að amast yfir enda hinum megin við götuna. Mannfjöldinn var nokkur í þessum partýum og misjafnir karakterar.
Maðurinn var ávallt nokkuð blautur og lét sambýling minn óspart vita hversu góð hljómsveit Grateful Dead var. Nú má hitta þennan ágæta mann í góðu veðri á Austurvelli við hliðina á Lalla & co.
Núverandi íbúi íbúðarinnar er búin að vera í burtu í nokkurn tíma. Hún virðist búa þarna ein en engu að síður hafa margir aðgang og lykla að íbúðinni. Vinir Lalla virðast líka þekkja þessa konu því oft er bankað uppá um miðjan dag með opna bjórdós í hönd og annað slíkt. Þá eru 2 karlmenn með aðgang að íbúðinni og kíkja oft við hvort sem núverandi íbúi er heima eða ekki. Nýlega var einni konu hleypt inn af einum þessara manna, en útgangurinn á henni lét mig hugsa sem svo að hún ætti ekki bað né hrein föt. Kannski eru þetta fyrirframgefnir fordómar í mér um útlit fólks og auðvitað ætti ég ekki að dæma fólkið á útlitinu einu saman. Einn þessara manna kemur við sögu í þessari frásögn sem heldur nú áfram.
Eftir sturtuna var kominn jeppi á staðinn með 2 mönnum í sem voru tíðir gestir í húsinu. Fljótlega fór jeppinn að fyllast með ýmsu dóti úr íbúðinni, helst þá klæðnaði og stórum pokum, og sagði einn maðurinn það vera erfitt að vera heimilislaus og þurfa að bera allt þetta. Því virtist mér sem hann hafi ákveðið að gera þessu heimilislausa fólki greiða með því að geyma þetta dót í íbúð vinkonu sinnar sem hann hafði aðgang að á meðan hún var í burtu. Það fannst mér nokkuð vinsamlegt af manninum en það var greinilega ekki gert með leyfi því annars hefði löggan ekki verið þarna. Einnig datt mér í hug að þetta væri þýfi, en þar sem þetta voru ekki tölvur og skjávarpar, heldur ,,mjúkir” pokar þá útilokaði spæjarinn það fljótt. Kunninginn virtist ekki glaður en sagðist vera bara eðlilegur maður Hann kallaði nágrannakonuna helvítist tík, öskraði og var með ögrandi líkamstilburði við lögregluna. Lögregluþjónarnir héldu sig í ákveðinni fjarlægð og báðu mennina tvo að drífa sig í að fjarlægja dótið úr íbúðinni sem þeir og gerðu. Kunninginn var ekki sáttur við lögregluna og að þurfa gera þetta og hnykkti út með þessum orðum: ,,Þið sem nauðgið heimilislausum konum í klefanum... “
Hér lauk vakt spæjarans en margar hugleiðingar brjótast um eins og: það er gott að einhver vill hjálpa heimilislausum konum með því að geyma dótið þeirra og leyfa þeim að gista í íbúðum annarra. Spurning hvort gjald sé tekið fyrir og þá í hvaða formi? Varðandi fangaklefana hvar heimilislausir þurfa víst oft að gista þar sem þeir fá ekki inni í gistiskýlunum ef þeir eru undir áhrifum (eða svo hef ég heyrt í fréttum), þá finnst mér skrítið að maður fyndi upp á þessari staðhæfingu hjá sjálfum sér án þess að vita til þannig atvika. Að sjálfsögðu getur verið að hann hafi verið svo reiður að þetta hafi verið það ljótasta sem hann hafi fundið upp á á þessari stundu. Nú þegar heimilislausum konum fjölgar stöðugt og Konukot alltaf fullt, er augljóst að eitthvað þarf að gera í málinu.
Það er ráð að enda þennan pistil á því að senda góða orku til allra sem á henni þurfa á að halda. Ást, friður og kærleikur til ykkar allra. Góða helgi.
föstudagur, 2. maí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli