sunnudagur, 25. maí 2008

Eru sunnudagar framtíðin?

Sunnudagar eru svo ljúfir. Sérstaklega þegar sólin skín. Þessi tími ársins þegar sólin er komin á kreik og gróðurinn að lifna, túlípanalaukarnir blómstra og hlussubýflugurnar suða er æði. Þá finnur maður sig vakna, lundina léttast og líkaminn lifnar við. Framkvæmdagleðin tekur völdin og þessi aukaskammtur af krafti sem maður á eftir að búa við fram að hausti fær sín notið.

Fyrsta heimsóknin mín á Listahátíð var í dag á sýningu í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg var í dag. Þar mætti myndlistin arkítektúr á framandi máta. Verk hvers listamanns var yfirleitt í stærri kantinum þegar kemur að myndlist, heilu rýmin og hvergi var að sjá för pensils. Þarna mátti sjá kertaloga skapa fjórfalda birtu í dimmu rými, rólur hangandi úr lofti heils salar sem mann langaði að róla í væri það ekki fyrir skírskotunina í kynlífsrólur hverskonar, sexfalt vídeóverk sem mátti einungis skoða í bláum skó-plasthlífum skoðaði hringformið og iðandi uppsprettur sem minntu á landslag reikistjarnanna, endalaus ranghali í niðamyrkri til þess að kynnast/ögra sjálfum sér? auk annarra smærri verka. Lillablábleiki álskúlptúrinn var einnig heillandi.

Hér er tækifærið til að óska landsliðskonunni í fjölskyldunni til hamingju með stúdentsprófið. Veislan í gær vatt huga mínum aftur um 10 eða 11 ár í mína eigin stúdentsveislu og í minningunni var ein vinkona mín sett í það að fá einn bjórkassa lánaðan úr bílskúrnum fyrir meira partý seinna um kvöldið. Mér fannst það sniðug hefð svo að í gær fékk ég að vísu bara 2 bjóra lánaða í nesti á leiðinni heim. Takk fyrir mig. Hvað gerir maður ekki í kreppunni?

Þá hækkar bensínið stöðugt. Svo mikið að manni finnst hálfblóðugt að setjast upp í bifreið. En á morgun eru einmitt 40 ár síðan hægriumferð tók við að vinstriumferð. Þá þurfti að panta inn nýja strætisvagna með dyrnar réttu megin. Mun Reykjavíkurborg einhvern tímann fá rafmagnslestar eða aðra gerð af almenningssamgöngum sem eru skilvirkari? Hvenær komum við til með að fljúga loftförunum okkar á milli staða? Hvenær er framtíðin?

Á sunnudögum vökva ég blómin. Einhverra hluta vegna finnst mér ekki við hæfi að vökva þau á kvöldin. Þess vegna þurfa þau að bíða með að fá að drekka þangað til í fyrramálið. Sem er framtíðin. Kannski get ég bara haft alladaga sem sunnudaga. Þá væru sunnudagar alltaf framtíðin.

1 ummæli:

baba sagði...

listin er andrúmsloft sem þú gengur inn í...segja sumir heimspekingar...og náttúran er líka andrúmsloft..þess vegna eru þær svona líkar, listin og náttúran..eða hvað? sunnudagar eru svo sannarlega framtíðin:)