fimmtudagur, 15. maí 2008

Allt gott í kringum okkur

Ætli það rigni í nótt? hugsaði ég nú rétt í þessu út á svölum. Gróðurinn hefur tekið stakkaskiptum og maður sér mun á trjánum næstum því á hverjum degi. Ómar úr Hafnarhúsinu berast í kvöldgolunni, líklega Amiina og Kippi að gera listaverk á Listahátíð. Það var hálfgerð listahátíð hér þegar tengdafjölskyldan bjó í íbúðinni. Fá orð fá því lýst hversu vel okkur gengur að eyða tíma saman, en ég er ótrúlega heppin með að þekkja svona gott fólk og fá að vera í návígi við það. Kannski er það einmitt málið, en oft hef ég hugsað að fjarlægðin geri samband okkar líka svona gott. Amma og afi Sophie, ásamt tveimur frábærum föðurbræðrum. Einn með óbilandi áhuga á leiklist og hinn á leið í listir lækninganna. Gæðagaurar sem fóru á tvenna tónleika hjá stóra bróður og annar lét þau orð falla að hann trúði því hreinlega ekki að bróðirinn væri pabbi, en að á sama tíma væri það frábært. Einn Gullni hringur nægði þeim út fyrir borgarmörkin en annars var tíminn vel nýttur í almennt hangs og vöffluát. Þá var einnig dýrleg máltíð á Sjávarkjallaranum þar sem allt var klárað upp til agna. Ekki veit ég hvort skammtarnir voru smáir, allir svona hungraðir eða maturinn svo góður að maður gat hreinlega ekki sleppt því að borða aðeins meira. Eflaust sambland af þessu öllu.

Mér finnst tíminn líða svo ógurlega hratt að næstu þrír dagar verða tileinkaðir öndun. Ekki öndum. Heldur öndun til að fanga augnablikið, senda góða orku í ýmsar óskir, vera auðmjúk og þakka, lofa loftið, borða, elska og vera úti í náttúrunni. Til að það gerist mun The Red Thunder, einn af nýjustu fjölskyldumeðlimunum færa okkur nær takmarkinu. Hér má sjá hana hvíla sig úti á götu


Vona semsagt að það rigni fyrir grasfræin sem ég sáði í jörðina, eftir að tengdafaðir Wilfred var búinn að stinga hana upp.

Þrjár Basilikum plöntur gróðursetti ég að undirlagi Garðyrkjubóndans, eina fyrir hvert okkar hér í nýju fjölskyldunni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ elsku sæta.
Lóðin verður eflaust mjög fín hjá ykkur :) Er hægt að óska eftir myndum af heimasætunni fögru? Þá er ég að meina Sophie Magdalenu þó móðirin sér með sönnu afar fögur líka.
xx Ágústa