þriðjudagur, 3. október 2006

I-IIIII=III--

vindhviðu síðustu viku tekur að lægja.

Lyklavöldin eru komin í hendur góðs manns en í dag er fyrsti í án atvinnu og því er ég enn að jafna mig. Annars er atvinnan mín hin, skólinn, rosa spennandi þessa dagana og ég er að byrja að taka viðtöl. Með gleði og trega kveð ég vinnustaðinn. Nýir tímar framundan.

Fór á frábæran fyrirlestur um list hjá þýskum heimspekigaur Georg W. Bertram sem mér langar að skrifa um en nenni ekki núna, hjá honum er málið bara að ekki sé hægt að skilja list á hlutlægan hátt og að hún geti verið skilin sem sjálfsþekking. Já ég held ég elski list.

Við þingsetningu í gær mótmælti ég ásamt svona 29 manns fyrir framan Alþingishúsið. Þar stóðu lögreglumenn og -konur heiðursvörð sem felur "hebb tú þrí for, hebb tú snú" í sér. Gasalega leið mér örugglega við að sjá lögregluna geta snúið sér á tá og fæti í takt með hanska og vel greitt hárið. En herforinginn stjórnaði og öskraði leiðbeiningarnar eins og maður sér í her-bíómyndunum.

Vort daglegt brauð er mynd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni sem er mjög sérstök fyrir þær sakir að ekkert er talað í henni og tilbúin tónlist er ekki notuð, heldur einungis við þau raunverulegu/umhverfis hljóð sem áttu sér stað við tökur myndarinnar. En myndin gefur mjög góða sýn hvernig maturinn sem við látum ofan í okkur (og þá allra helst Evrópubúar) er búinn til. Myndin byrjaði hægt og ég bjóst ekki við miklu en að lokum var ég farin að kúgast yfir öllu ógeðinu. Ætla ekkert að fara að lýsa því í smáatriðum, en maður hugsar sig kannski aðeins um hvaðan ólífurnar og paprikurnar og kjúklilngarnir og fiskflökin koma næst... ég er allaveganna mjög glöð yfir að hafa séð þessa mynd því verandi borgarstúlka hef ég ekki mikla tilfinningu yfir því hvað þarf að gera þegar maður slátrar kú, ræktar sólblóm, fer í sérstakan eiturefna hvítan galla með gasgrímu til að úða grænmetið, elur grísi eða tínir tómata. Sér í lagi þegar það er gert í þessum iðnaði þar sem magnið og hraðinn skiptir öllu máli en gæði vöru og siðferði við vinnslu er ekki tekið með í reikninginn.

Á sama tíma og Vort daglegt brauð vakti upp ógeð hjá mér á öllum þeim ,,venjulega" ólífræna mat sem maður borðar dags daglega þá beinir það augum mínum til heilaþvottastöðvanna, því hvernig hafa fyrri kynslóðir komist af án þess að borða einhvern svaka vottaðan mat sem kostar grilljón krónur? Þá er ég ekki frá því að markaðsöflin skipti líka miklu máli í þessum efnum sem öðrum, skammtar orðnir stærri, unnin matvara algengari, lífrænn matur verður hluti af stéttskiptingu samfélagsins því ekki hafa allir kost á að kaupa lífrænt, tímaskortur til eldamennsku almennur vegna vinnuálags o.s.frv. Kannski bara vítahringur sem verður að brjóta, kannski bara hægt, borða hægt...

góðir hlutir gerast hægt.

Engin ummæli: