sunnudagur, 12. júní 2005

veislan

Veisla í húsinu í dag. Vöffluveisla og það var gaman. Það sem mér þótti vænt um m.a. var það að veitingarnar kláruðust, þó ekki drykkir. En það tel ég vott um að erfiði mitt bar árangur. Erfiðið við það að baka 3 kökur. En mér finnst gaman að baka. Og sérstaklega gaman þegar fólk nýtur afrakstursins. Mömmu var plantað við vöfflutækin, sem voru tvö til að anna eftirspurn. Ég vona að þar hafi henni liðið vel, en stundum er gott að fá hlutverk í veislum. Upprunalega áttu allir bara að baka sína vöfflu sjálfir. En ég held að hún hafi ekki grátið stöðu sína og hafði á orði að allir ungu mennirnir litu eins út. Þá hváði ég bara þangað til hún útskýrði að allir væru þeir með eins hárgreiðslu, þ.e. ógreiddan lubba. Mér finnst gaman að halda veislur. Þessi endaði á fótpokaspili /grjónaboltaspili í garðinum. Alveg til klukkan átta en þá var farið að kólna þó sumarið sé komið og þá var elduð ein afmælisgjafanna, saltfiskur. Jumm. Hef ekki lagt það í vana minn að eta saltfisk. En þessi var sérdeilis gómsætur með fetaosti, í appelsínu/sítrónusafa og með tómmötum og papriku í ofni. Gómsætur sunnudagur með góðu fólki.

Tónleikaáætlun fyrir sumarið:
1. Snoop Dog 17.júlí
2. Bobby MacFerrin og kór Langholtskirkju ? ágúst
3. Sonic Youth og brúðarbandið. 16. ágúst
En hér með eru þeir ekki upptaldir, tónleikarnir, þar sem ég er viss um að eiga eftir að hlusta á marga. Marga. Skrítið orð.

Með mikilli gleði í hjarta skunda ég til vinnu á morgun klukkan átta. Um morguninn takið eftir. Þá verð ég afgreiðslustúlka í mötuneytinu. Til viðbótar við dyravörðinn. Gaman að geta brugðið sér í mismunandi hlutverk. Kannski er ég bara leikari.
Mér finnst skrítið að segja góða nótt þegar allt er svona bjart og segi því bara friður, að eilífu, amen.

Engin ummæli: