laugardagur, 29. desember 2007

system overload

x: mhat thie tis hsi hohj
ak: ha?
x: mhat thie tis hsi hohj
ak: ha?
x: mhat thie tis hsi hohj... ertu með banana í eyrunum?
ak: nei, en ég er með bjúg í eyrunum!

Allt greinilega hægt þegar maður er að springa úr ófrísku. En bara í hægra eyranu samt. Það sér ekkert á því, við erum ekkert að tala um fílamannseyrað, það er bara stundum svona seyðingur innan í því.

Fyrirvaraverkir láta gera vart við sig, sér í lagi eftir að ég rústa partner í Guitar Hero. Hann er farinn að segjast ekki vilja spila við mig lengur til verndar heilsu minnar og baby...

Annállinn er í hugrænni vinnslu og vonandi birti ég hann hér fyrr heldur en síðar.

föstudagur, 21. desember 2007

mánudagur, 17. desember 2007

Jörð Vatn Loft Eldur

Heppnin, lukkan og gæfan fylgja mér þessa dagana og ég er viss um þær eigi eftir að fylgja mér áfram. En ég á heilladísir, vinkonur mínar sem voru svo yndislegar að framkvæma mæðrablessun að hætti Navajo-indjána, sjá nánar hér
.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa sérstöku stund sem við áttum saman, en í stuttu máli sagt var þetta mér mjög dýrmæt gjöf og þakka hér með opinberlega fyrir mig. Þá ber að bæta við að heilladísirnar eru góðir kokkar og fylltu frystinn okkar af ýmsu góðgæti sem á eftir að fylla munna og maga af gleði og næringu.

Síðastliðinn föstudag náði ég að klára öll verkefni vinnunnar þannig að nú er ég komin í fæðingarorlof. Það er pínu skrítið. Í upphafi meðgöngunnar gat ég ekki gert mér í hugarlund hvernig það myndi vera eða bara hvernig ég myndi vera þegar síga færi á seinni hlutann, nú eða sumir myndu bara kalla þetta loka-sprettinn. En tíminn líður og mér líður vel og ég er viss um að barninu líður vel og þetta er bara allt í góðu. Yogað og sundið eru akkeri mín, auk þess sem ég heimsótti bókasafnið á föstudaginn til þess að verða mér úti um lesefni fyrir andvökunætur. Ég skil einmitt ekki þetta með það að vakna á nóttunni og geta ekki sofið, jafnvel þó barnið sé kannski líka sofandi. Það er alveg skiljanlegt að vera vakandi og geta ekki sofið þegar barnið er á fullu spani. En hitt skil ég ekki. Kannski er bara verið að æfa mann í því að vera vakandi á mismunandi tímum sólarhringsins og taka því eins og það er...

Á föstudaginn var síðasta stundin mín með ólæsu konunum sem hafa verið með mér í haust, en þær konur eru án efa skemmtilegustu nemendur mínir í vetur. Enda ekkert skrítið að hafa gaman þegar svona fallegar konur eru komnar saman með það að markmiði að eiga góða stund, jafnvel læra eitthvað, nú og hlægja saman. Konur sem tala tungumál heimalandsins, kunna sjaldan að skrifa eða lesa það og íslenskan er þeim framandi heimur þar sem stafrófið er yfirleitt gjörólíkt því sem þær hafa kannski einhvern grunn í. Latneska stafrófið og hljóðkerfið sem er hér við lýði er bara nokkuð flókið þegar betur er að gáð miðað við t.d. arabísku, nepölsku eða tælensku. Þegar íslenskukunnáttan er takmörkuð reynir á leik- og teiknihæfileika sem náttúrulega blómstruðu hjá okkur á oft mjög fyndinn hátt. Já, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum sterku konum, frumkvöðlum sem búa í nýju landi, frumkvöðlum að því leyti að hér eru þær að sækja sér betra líf sem þær vonast yfirleitt til að geta deilt með öðrum fjölskyldumeðlimum heimafyrir, eins og t.d. börnum sínum sem eru ekki hér. Þetta námskeið sóttu konur sem eru yfirleitt utan vinnumarkaðar og hafa fá tækifæri til þess að eiga í félagslegum samskiptum við aðra. Þrátt fyrir bágar og oft ömurlegar og sorglegar félagslegar aðstæður þeirra (að mati velflestra Íslendinga) voru þær alltaf glaðar og bjartar, brosandi og hlæjandi. Þessar konur voru líka kennararnir mínir enda lærði ég fullt um sjálfa mig og önnur efni bara af því bara að vera með þeim. Næsta verkefni er að fá sér tesopa með slettu af ást og friði fyrir okkur öll.

þriðjudagur, 11. desember 2007

sjónræninginn & joðlarinn

Ég var stödd í suður Þýskalandi, gekk eftir grænum engjunum, hlíðunum og ökrunum. Þar var margt um manninn, allir að jóðla. Ég var semsagt mætt á jóðl-mót og til í tuskið. Rosa fjör. Þarna voru m.a. jóðl-pönkarar sem tóku þátt og gerðu það með prýði. Sjálf tók ég ekki þátt en leið soldið eins og mig minnir að ég hafi upplifað bækurnar um Heiðu. Náttúran græn, mjúk og fín.

Úr öðrum raunheimum er það síðan að frétta að um daginn fór ég á Ceilidh á Íslandi. Hingað til hef ég bara farið á þesskonar samkundur í Kanada. En þar var sko fjör og allir að dansa eins og enginn væri morgundagurinn (svona til þess að nota frasa sem er einmitt ofnotaður í dægurskrifum nútímans). Í þetta skiptið meikaði ég ekki að dansa neitt þar sem ég er svona soldið þyngri á mér en vanalega, en næst mun ég dansa og hrista fram úr pilsfaldinum alla þá dansa sem gömlu mennirnir í Kanada hafa kennt mér. Semsagt skoskt danskvöld, lifandi tónlist og ótrúleg stemning.

Partner uppi á spítala í augnaðgerð. Ég sit við símann og bíð, reddý að fara að sækja. Vona að hann þurfi ekki að sofa þar. Ég hef alltaf fílað sjó(n)ræningja.

fimmtudagur, 6. desember 2007

sunnudagur, 2. desember 2007

upp upp

Pistill dagsins verður m.a. tileinkaður upphækkunum, en úr úthverfunum bruna þau, á upphækkuðum jeppum... Alltaf þegar eitthvað er um að vera í miðbænum (eins og menningarnótt, 17. júní og ljósin kveikt á jólatrjám) verða íbúar Grjótaþorpsins og þar fyrir ofan varir við ógurlegt safn bíla sem safnast saman uppi á gangstéttum í veg fyrir gangandi vegfarendur. Yfirleitt truflar það mig ekkert sérstaklega en það er mjög fyndið að sjá fullorðið fólk leggja kolólöglega og hlaupa af stað úr bílum sínum með börnin í eftirdragi til þess að missa ekki af neinu. Hvernig væri að fara fyrr af stað?

Aðrar upphækkanir eiga sér stað í rúminu. O sei sei, ekkert dónó hér á ferð, nema það að hin sístækkandi bumba er farin að krefjast aukins stuðnings og því hef ég hertekið alla kodda og púða heimilisins til að láta fara sem best um mig á nóttunni. En baunina er hvergi að finna, þó ég vakni ótt og títt á hverri nóttu. Það gerir það að verkum að ég er yfirleitt mjög þreytt, líka á daginn. Þess vegna er staðan sú að ég er komin með vottorð læknis upp á það að minnka vinnuna í 50%. Það ætti að verða munur nú þegar rúmlega 1 mánuður er eftir af þessu fyrirbæri sem meðgangan er. Annars get ég sagt að mér líði almennt mjög vel.

Þá eru skötuhjú þessa heimilis farin að stunda leiki á borð við að fara upphátt með stafrófið og segja nöfn fyrir hvern staf sem þeim dettur í hug. Verst er að ég kann stafrófið svo illa þannig að hinn fær alltaf að byrja, Zorro og Zelda í gær... spennandi að sjá hvað kemur upp úr krafsinu í dag... kannski Pókemon og Píla Pína. Annars bara gleði og friður.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

“Er nokkuð hægt að gera netfrumur á status frá því í gær?”

,,ekki setjast þarna elskan mín, ... komdu með grindina þína með þér...”

Nú er ég á spítala í sykurþolsprófi, öryggisins vegna þrátt fyrir að engin fjölskyldusaga sé um sykursýki og annað slíkt. Til þess að hægt sé að gera þetta þarf ég að vera hér á Landakoti hjá gamla fólkinu í Lazy-Boy stól í a.m.k.120 mínútur. Ég mætti klukkan 8 í morgun, fastandi frá því í gær með þurran munn, gleypti samt óvart vatn við tannburstun. Á móti tóku mér 2 hálfdanskar konur sem tóku blóðið mitt, gáfu mér sykurvatn að drekka og kalla mig litlu konuna o.s.v. Ég geri ráð fyrir að þær séu meinatæknar. Þær voru himinlifandi yfir því að bókabúðin hefði gefið þeim dönsku blöðin (sem búið var að rífa kápurnar utan af) svo fólk gæti lesið. Ég var aftur á móti ekki himinlifandi enda hef ég ekki viðhaldið dönskukunnáttunni sem safnaðist saman í menntaskóla. Hér á spítalanum er aftur á móti annað íslenskt tungumál sem ég skil heldur ekki.

,,Þannig að ég var að spá í þar sem æðin er náttúrulega stokkbólgin hvort ég gæti notað sermið síðan í gær til að mæla kreatínið og urea... það bara rennur pínulítið og síðan hættir...”

Ég þakka afmæliskveðjurnar. Það er ekki amalegt að verða 30 ára þegar viðskiptabankinn manns sendir manni innpakkaða matreiðslubók eftir líkamsræktarfrömuð í afmælisgjöf. Ætli 30 ára karlkyns viðskiptavinir bankans hafi fengið sömu gjöf? Er það bara gefið að allar konur hafi áhuga á matargerð með líkamsræktarívafi? Það vill svo vel til að ég hef áhuga á matargerð, en þessi bók var soldið prumpuleg. Maturinn á Fiskimarkaðnum var aftur á móti ekki með prumpubragði en þangað fóru skötuhjúin út að borða í tilefni dagsins um daginn. Grænmetis taco með chilisósu var forvitnilegur unaður og einn mest djúsí lax sem ég hef fengið var hinn aðalrétturinn, enda er þarna grill af japönskum ættum sem grillar í allt að 1200 gráður og lokar þar með laxinum mjög snöggt sem gerir það að verkum að hann verður ómótstæðilega safaríkur að innan. Venjuleg grill fara sjaldan yfir 600 gráður. Sushi-ið í forrétt stóðst ekki gæðakröfur sessunautsins, enda virtist sem hrísgrjónin hefðu verið soðin daginn áður. Fín þjónusta og notalegt andrúmsloft.

,, ... þetta er bara ill meðferð á einni gamalli konu sem er búin að þola alveg nóg...”

mánudagur, 12. nóvember 2007

Kryddlagkakan



Það er margt að bruggast í undirheimum mínum þessa dagana, sérstaklega á nóttunni. Ég veit ekki hvernig það kemur til, en oft einkennast draumar mínir af skrítnum aðstæðum með tilvísunum í eitthvað miður gott, eins og morð, dráp, vopn, og í nótt voru það eiturlyf. Bólfélaganum dreymir aftur á móti alltaf eitthvað skemmtilegt um baby. Athuga ber að þegar ég segi eiturlyf, þá á ég við efni unnin á tilraunastofum (eða í bílskúrum), efni sem eru mjög fjarlæg náttúrulegum efnum á borð við marijúana, en sumar vefsíður segja marijúana vera gott fyrir vöðva legsins í fæðingarferlinu. Ég veit ekki hvað læknar og ljósmæður Vesturlandanna í dag myndu segja við því?

Í gærkvöldi á meðan kæri bakaði pizzu kvöldsins sá ég í fréttatímanum frétt um rannsókn úr læknablaðinu Lancet (frá að mig minnir mars 2007) um skaðsemi eiturlyfja. Þar voru teknir félagslegir, líkamlegir og andlegir þættir með í leikinn og heróín var þar efsta á lista, en í 5. kom áfengi, þar á eftir amfetamín, seinna tóbak og þar á eftir kannabis, lsd og e-pillur. Því var velt upp hvort nauðsynlegt væri að endurskoða flokkun Vesturlandanna á eiturlyfjum og þ.m.t. áfengi.

Að öðrum gleðilegri efnum. Ég er að verða 30 ára á fimmtudaginn og hlakka til. Ekki út af einhverju húllum hæi, heldur finnst mér bara gaman að eiga afmæli. Ég bakaði köku í gær, fékk uppskriftina hjá Únnu systur sem lumar alltaf á massa uppskriftum. Hún á meira að segja spes jóla-uppskriftabók. Kökuna má kalla kryddköku eða lagköku og er soldið maus að gera en gaman. Brún röndótt kaka semsagt sem bólar alltaf á um þetta leyti árs. Hún er uppáhalds eftirrétturinn minn í morgunmat.



350 gr sykur
250 gr smjörlíki (mjúkt)
hrært saman

3 egg – eitt sett í einu, hrært á milli

500 gr hveiti
1 ½ tsk matarsódi
1 ½ tsk lyftiduft
2 ½ tsk kanill
2 ½ tsk negull
3 mtsk kakó
þurrefnum blandaði í sér skál og blandað hægt við hitt.

2 ½ - 3 dl mjólk blandað út í blöndu.

Skipta deigi sem er seigt og slímkennt í 3 jafna hluta, dreifa á bökunarpappír á bökunarplötur, reyna að jafna þykktina (verður pottþétt ójafnt, en maður sker endana af, til að gera fínt).

Hvert lag bakað í 15 mínútur við 180 gráður.

Krem:
225 gr smjör
4 eggjarauður
500 gr flórsykur
1 tsk vanilludropar

Skipta kremi í 2 hluta, setja ofan á kælda köku, vanda sig rosa mikið við að setja annað lag ofan á og krem þar á. Loka síðan dæminu með síðustu kökuplötunni. Kantskera. Skera í 6 – 8 bita, láta í álpappír og poka og frysta.

mánudagur, 22. október 2007

sunnudagur, 21. október 2007

armadillo a airwaves

Nýlega drap ég mann í draumi, en í nótt drap ég armadillo í draumi.
Það gerði ég með því að stinga trédrumb upp í munninn á honum (sem náði pottþétt alveg niður í háls, ef ekki lengra) og síðan hélt ég munninum á honum lokuðum svo lengi sem það tók fyrir hann að deyja. Þetta var bara eitthvað sem þurfti að gera, ekkert vesen, ekkert mál. Ég var sunnarlega á hnettinum, ef ekki í Suður-Ameríku.

Þegar ég vaknaði hugsaði ég með mér að e.t.v. gæti ég búið til kúrekastígvél úr skinni Armadillo.
Þegar ég googlaði armadillo, þá sá ég að í alvörunni lítur hann alls ekki út eins og sá sem ég drap í draumnum. Í raunveruleikanum hef ég aldrei svo ég muni, séð armadillo.

Seinna verður fjallað um Airwaves hátíðina.

laugardagur, 13. október 2007

big girls do cry

Eftir strembna en ofurhraða vinnuviku hlakkaði ég til að fara og njóta helgarinnar. Það fyrsta sem ég gerði var að ná í bílinn og bruna út í Gróttu þar sem ég grét. Og það var gott. Ég var ekkert að gráta yfir neinu sérstöku, en öldurnar voru svo mikilfenglegar, skýin, liturinn á hafinu, byljandi regnið og sólin. Síðan eftir þetta allt saman birtist regnboginn mér allur í heild sinni. Mjög hressandi. Hormóna-hvað? Eða svöng og þreytt? Það kannski skiptir ekki öllu máli en þetta var gott bað fyrir helgina. Einn mannlausu bílanna úti í Gróttu hafði að geyma dísarpáfagauk (eru það ekki þessir stóru?). Stórt búr fyrir stóran fugl.

Annars bara hress hérna megin. Búin að fara og taka sundsprett og það er nú bara svo fyndið að vera í heita pottinum. Fyrst er byrjað að tala almennt um veðrið við frekar fáar undirtektir en um leið og einn segir veðrið hafa verið stormasamt í pólitík liðinnar viku springur allt og allir hafa eitthvað til málanna að leggja. Í sundi var líka eldri kona í mjög svo slitnum sundbol. Mér leið illa fyrir hennar hönd og velti því fyrir mér hvort ég ætti að benda henni á það, en svo slitinn var hann að maður sá í gegn hér og þar. Ég ímynda mér að hún hafi alls ekki gert sér grein fyrir því ....

Í kvöld fagna ég með vinkonum í samkomuhúsinu í Garðinum og hlakka mikið til. Ímynda mér að þar verði sannkölluð mafíósastemning. Talandi um mafíuna, þá var síðasti þáttur Sopranos þátttanna pínku vonbrigði þó tilvísunin í Godfather hafi verið góð. Hér á heimilinu verður næsta vika sjónvarpslaus, enda nóg komið af því í bili. Annað meira spennandi handan við heygarðshornið. Airwaves hátíðin mikla. Það kannski hljómar sem svo að ég sé að mikla þetta fyrirbæri, en staðreyndin er sú að þetta er mér einmitt mikilvægt fyrirbæri. Nánar um það síðar, þegar rannsóknin og niðurstöður hennar koma út .... hvort sem það verður 2008 eða 2009.... Back to the Future. Lifið heil.

sunnudagur, 7. október 2007

sunna sunnudagur

það er svo gott og gaman þegar sólin skín eins og í dag.

Undanfarin kvöld hef ég ræktað menningarvitann. Fór og sá Hjaltalín og Danielson í Fríkirkjunni og Svartan fugl í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hressandi tónleikar með óvenjumiklum bassa hjá Hjaltalín sem náði alveg til baby sem brást við með miklum dansi. Daniel í Danielson var aftur á móti skræka týpan með minni bassa og spiluðu mjög forvitnilega tónlist fyrir þær sakir að vera t.d. með miklum taktbreytingum og óvenjuleg rödd aðal-söngfuglsins kom stöðugt á óvart. Hljómsveitin kom fram í búningum sem minntu á skátabúninga (ekki hvítu málningabúninga Skáta, heldur alvöru skátabúninga). Söngkonan gerði stundum handahreyfingar og þar sem tónleikarnir voru í kirkju fékk ég stundum á tilfinninguna að þarna væri um trúarlega tónlist að ræða. En textarnir voru mjög skemmtilegir þar sem absúrd textagerð höfðar mikið til mín. Það var gaman og bekkirnir í Fríkirkjunni ómögulegir, líkast til eins og í velflestum kirkjum. Svartur fugl tekur á alvarlegri þáttum mannlífsins. Það gleður mig að leikhúsið sem listform taki það í hendur sínar að ávarpa efni sem þetta, enda vandmeðfarið og viðkvæmt. Átakanleg, áleitin og einföld sýning.

Annars er ég bara í góðum gír, vildi að helgarnar væru lengri og sólin skini aðeins lengur og tíminn bara líður svo ofurhratt. Kartöflurnar eru að sjóða. Iceland Airwaves æsir mig. Er alveg að klára síðustu seríu af Sopranos. Ætla að bjarga pótintátunum.

þriðjudagur, 25. september 2007

skapandi þyrluflug

Í þetta skiptið var ég ekki að stýra þyrlunni, heldur sat aftur í. Við flugum yfir strandlengjuna og sjórinn var fallegur. Himinninn fagurblár. Skyndilega komu tvær flugvélar á vinstri hönd og flugu framhjá okkur. Nokkru seinna vorum við komin yfir skóglendi, þar sem dökkgræn trén blöstu við. Ég heyrði að eitthvað snerti botn þyrlunnar, laufin snertu þyrlubotninn, þyrlan var komin að trjátoppunum. Hægt og rólega nauðlenti þyrlan og engan sakaði.

Nú var tekið að dimma og við héldum í gegnum skóginn þangað til við komum að kastalanum, sem var að vísu bara á tveimur hæðum, ólíkt Grant-kastalanum í Skotlandi sem er á fleiri hæðum, en þessi kastali var eins í laginu. (Á meðan ég skrifa þetta man ég allt í einu að tengdaforeldrar mínir eru eða eru nýlega búnir að vera að ferðast um Skotland og þá pottþétt að heimsækja kastala forfeðranna...) Allaveganna. Á leiðinni úr skóginum og í kastalann komu nokkrir strákar og buðu mér heróín sem ég afþakkaði. Þegar inn var komið í kastalann sem var ofsalega fallegur kom ég mér þægilega fyrir í eldhúsinu, hitti þar mömmu sem ætlaði aðeins niður í kjallara....

Svona er þetta bara. Ég er á fullu allan daginn og allar nætur. Síðan var mér var einmitt hugsað til sköpunarkraftsins. Ef ég er að skapa nýtt líf innan í mér þá hlýt ég að vera að nota sköpunarkraftinn heldur vel. Eftir yogað í dag tók ég tal við kunningjakonu mína, tónlistarkonu sem á líka von á barni. Hún hafði einmitt verið að hugsa það sama, sagði lítið vera að semja á þessum misserum þegar baby væri að vaxa. Sköpunarkrafturinn getur verið svo skrítinn, merkilegur og mismunandi eftir tímum. Ég skapaði t.d. þessa forláta tómatsósu í kvöld.

Annars er svo gaman í vinnunni að ég get ekki og hef ekki tíma til að hugsa um neitt annað. Hreiðurgerð og annað slíkt verður að bíða ,,betri" tíma. Þó komin með vilyrði frá vinkonu fyrir rúmi. Þá bíð ég spennt, ofurspennt eftir Iceland Airwaves þegar ævintýrin gerast og borgin ljómar af sköpunarkrafti.
ást og friður.

sunnudagur, 9. september 2007

A sunnudegi sem þessum

- vakna ég við dyrabjölluna um miðja nótt, einhver að leita að partýi
- vökva ég blómin
- bíð ég eftir að sundlaugin opni og fer í sund
- tek ég upp úr töskunni, dótið sem ég var með í vinnuferð á Flúðum sl. 2 daga
- hugsa ég alltaf um að baka köku, athuga hvort til séu egg, smjör og súkkulaði
- finn ég baby hreyfa sig
- horfi út um gluggann
- hugsa um vikuna framundan, hvað bíði mín í íslenskukennslu, fræðslu og verkefnastjórn.
- finnst mér æði ef mamma býður okkur í lambalæri, en ekki í dag þar sem hún er á leiðinni frá Istanbúl.
- fer út að labba, helst út í skóg, niður í fjöru eða eitthvert annað en 101 svona til hátíðabrigða
- fer ég ekki í kirkju, enda ekki skráð í neina
- les ég The Road eftir Cormac McCarthy
- undirbý ég viðtal fyrir Anthropology of Airwaves og MaS (Mannfræðisambandið/ModernAnthropologyStudies)
- þvæ ég þvott
- hugsa ég til Almodóvar og myndarinnar Pepi, Luci, Bom frá ca.1980 og hvort myndin hafi tengst því hvernig lífið gæti verið eftir Franco
- hlusta ég á tónlist
- borða ég jarðarberin frá Flúðum
- Takk fyrir boðskortin, en ég ætla ekki að fara á Facebook, heldur vera hér á blogspot og skrifa endrum og eins og hér getur fólk líka kastað kveðju á mig og ég get kastað kveðju til baka.
- kasta ég kossum til Valdísar Árnýjar sem ég gat ekki hitt í gær, Hrefnu, Örnu M.A.- skrifara og Möggu Stínu (sem nú ætti að vera aftur komin heim til sín og ég ætti að fara að setja krækju á), Dodda, Hjördísar, svo ekki sé talað um alla hina sem ég hugsa oft til en sé sjaldan eins og Gullu og Bigga og Björt. Og já maður, Siggu sem skv. íslenskum fjölmiðlum var að opna sýningu í New York. Maður veit aldrei hver er að koma í heimsókn hingað. Allaveganna soldill Facebook fílingur í þessu, ha... sendi öllum ykkur hér með raf-blóm, poke a friend and all that ...
- heyri ég í flugfél fljúga yfir húsið
- og skríð aðeins aftur upp í rúm og til að kúra smá meira...

miðvikudagur, 29. ágúst 2007



Á síðdegisgöngu minni um skóginn í dag varð mér hugsað til þess hverrar gæfu ég er aðnjótandi að þurfa ekki að fara að týna sveppi til drýgja tekjurnar þegar ég sá nokkra gægjast upp úr jörðinni í rigningunni. Á morgun fer ég nefnilega á fyrsta starfsmannafundinn í nýju starfi og ég er spennt. Á mánudaginn byrja ég síðan alveg án þess að hafa skrifað undir plagg eða vera komin með nafnspjald. Ég hlakka til.

Þessa dagana er ég aftur á móti á fullu (og þá meina ég á fullu þar sem Kanadadvölin var heldur afslöppuð) við að klára sumarvinnuna mína og það verður að segjast að það gangi bara vel enda flytjendur Iceland Airwaves hátíðarinnar forvitnilegt fólk sem og annað en ég er að reyna að gera mitt besta til að koma sýn þeirra á framfæri. Ég gæti skipt þessum upplýsingum í 3 hluta, fyrir hátíðina, á meðan henni stendur og eftir að henni lýkur og síðan verður náttúrulega ofsa spennó að fá að upplifa hátíðina í ár. September, október...



Tíminn flýgur og það er kominn þurrkari á heimilið. Frekar fullorðins. Fred Dryer í höfuðið á Hunter. Annars bara allt eftir uppskriftinni, nema hvað, einmitt á göngunni minni í dag fannst mér sem líf mitt sé aldrei eftir uppskriftinni. Læt fljóta með undursamlega uppskrift af ídýfu sem smellpassar við allt hið ljúfa og ferska grænmeti sem bíður okkar þessa dagana í búðinni, nú eða með kex/flögum. Tekur 7 mínútur að gera, geymist heillengi í ískáp og bráðnar í munni:

2/3 bolli hnetusmjör (ósætt)
2/3 bolli salsasósa (hot)
1/4 bolli sítrónusafi
1 tsk cumin (man ekki hvað það er á ísl., en er ekki kúmen)
1 mtsk púðursykur
(1 - 2 tsk Worcestershiresósa ef vill til að tjútta aðeins upp í þessu)
Allt mixað saman (e.t.v. með töfrasprota sem nær hnetusmjörinu soldið léttu) og njótið vel.

mánudagur, 20. ágúst 2007

You scored as Hindu, You put your faith in the worlds oldest religon. there is more than one god and each is a god of great importance. to you reincarnation will occure untill youve earned a place in heavan.

Hindu

83%

islamic

67%

Atheist

58%

Buddah

50%

agnostic

50%

Protestant

50%

Born again

17%

jew

17%

Catholic

0%

what religon do you belong to
created with QuizFarm.com

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Dyrin i Johnstown

Á hverjum morgni vakna ég við fuglana sem kvaka á útlensku. (Hummingbird getur flogið afturábak). Kanínurnar hoppa út um allt og eru brúnar og stelast í kálið og salatið í grænmetisgörðunum. Nú þekki ég hljóðið í þeim en áður fyrr ruglaði ég því oft við fuglahljóð þangað til nýlega þegar íkorni varð á vegi mínum þegar ég rölti niður að vatni til að gera morgunyogað. Íkorninn gaf frá sér þetta ákveðna hljóð sem ég hljóðrita ekki hér, en gleymi heldur ekki. Hér eru íkornarnir rauðir á meðan íkornarnir í görðum stórborga eru oft af gráu tegundinni sem er hin tegundin.

Um daginn var einhver stærri vera inni í runnanum, stærri heldur en kanína eða íkorni og ekki var það einn af hundunum. Annaðhvort eru það áhrif Harry Potter og ímyndunarafls míns eða þá að þetta hafi verið Wildcat eða Bobcat. Því miður kann ég ekki nöfnin á íslensku.

Flugurnar hérna eru kapítuli útaf fyrir sig, en maurarnir eru við það að ljúka flug-tímabili sínu. Já þeir fá vængi um stund, ég ímynda mér að það sé til þess að auðvelda þeim að fjölga sér. Þá fljúga þeir um stórir og stæðilegir (þetta eru engir smámaurar) hangandi aftan í hvor öðrum.

Á aftanverðum hálsi mínum má telja 7 vegleg flugnabit, líklega af ýmsum sortum. Horsefly er ein af þeim (með græn stór augu) svo ekki sé minnst á moskítófluguna sívinsælu. Ég anda djúpt og læt mig ekki klægja í bitin. Nú er ég komin með Bug Off-sprey, náttúrulegt flugnasprey úr ilmkjarnaolíum sem varnar fólki ágangi flugna (deet free). Ég velti því fyrir mér hvort ilmkjarnaolíur í sprey-inu séu mér og barninu sem vex í maganum á mér hættulegt en notkun ilmkjarnaolía á meðgöngu er talin varhugaverð. Ég tek ilmkjarnaolíurnar þó fram yfir eitrið sem er að finna í ,,venjulegu" flugnafæluspreyi.

Af dýrum neðansjávar sem ég hef komist í kynni við má m.a. nefna rauðan Jellyfish (sem útlendingurinn ástmaður minn, þýðir sem sultufiskur, ég ímynda mér aftur á móti að þetta sé marglytta með langa rauða anga, ekki glærar disklaga eins og finnast í Reykjavíkurhöfn þegar ég veiddi þar marhnúta og annað hér áður fyrr). Þessi Jellyfish stingur fólk þegar angar hans strjúkast yfir húðina en ef maður grípur hann í lófann stingur hann ekki. Sagt er að húðin í lófanum sé það sterk... hmmm. Krabbarnir ofan í vatninu eru af þeirri tegund að þeir eru ekki ætir, á stærð við lófa fullorðinnar manneskju og sandlitaðir. Þeir gera manni ekki mein, narta kannski bara í tærnar. Ekki má gleyma öllum þörungunum og þanginu sem ég traðka stöðugt á þegar ég veð út í fyrstu metrana, sting mér síðan útí og læt öldurnar umvefja mig.

laugardagur, 21. júlí 2007

dimma

aðfaranótt 21. júlí var verulega tekið að dimma um miðja nótt. Það virðist sem bjartar íslenskar nætur eigi bara við í mjög skamman tíma á ári hverju en alltaf er gert svo mikið mál úr þeim. Sumir fögnuðu dimmunni í nótt, fannst sem þungu fargi væri af þeim létt.

Las í blaðinu í morgun að laugardagsmarkaðurinn í Mosfellsdal opnar í dag, 12 - 17 og er í gangi fram á haust. Þangað hefur mér alltaf fundist mjög gaman að fara og ná í ýmislegt góðgæti ræktað þar í kring. En í dag ætla ég að hlusta á djasstónleika og fara í brúðkaupsveislu. Á mánudaginn ætla ég til Kanadia. Jibbý. Lifið heil.

fimmtudagur, 19. júlí 2007

23886

Ég hljóp á eftir honum í svörtum sandinum. Hann hljóp hraðar en ég þrátt fyrir að hann haltraði á hlaupum sínum. Við vorum á flótta undan sama fólkinu. Áður höfðum við rænt og ruplað hér og þar, enda vorum við þvinguð til þess og höfðum ekkert val. Ég hafði mundað skammbyssuna á afgreiðslustúlku símafyrirtækisins en þrusað henni í staðinn á hnúa hennar sem studdist við afgreiðsluborðið þannig að úr blæddi. Blóðið fór vel við rauðan og hvítan einkennislit símafyrirtækisins.

Á meðan ég hljóp birtust myndir fyrir augum mér, eins og úr gamalli sjónvarpsútsendingu. Það var greinilegt að hann sem ég elti hafði tekið þátt í Ólympíuleikunum í fimleikum í heimalandi sínu, einhvers staðar í Asíu. Sjónvarpsútsendingin sýndi hann skara framúr í fimleikum með Ólympíuhringina í bakgrunninum. Hvernig stóð á því að hann haltraði svona?

Það er ónotaleg súr lykt í eldhúsinu og ég veit ekkert hvaðan hún kemur = ekki draumur.

sunnudagur, 8. júlí 2007

miðvikudagur, 4. júlí 2007

sumirdagar

Yfir nótt hafði könguló spunnið sér vef í hjólinu mínu, nánar tiltekið hjá stýrinu. Hún var í vefnum þegar ég hjólaði af stað, en ég held að hún hafi nýtt farið og stokkið í burtu á hentugum stað. Alveg eins og fatlaði hamsturinn Hulda sem tvítug frænka mín fékk í afmælisgjöf á dögunum og í miðju partýinu ákvað hann að fara á hentugri stað inni í trjálund og koma aldrei til baka.

Nú á dögum sem líða einmitt ofurhratt, einkennast þeir af staðgóðum morgunverði, vinnu (sem felur í sér afritun viðtala og að taka viðtöl við þátttakendur Airwaves) og sundferðum. Það mætti halda að ég gerði ekkert annað né borðaði bara einu sinni á dag, en svo er ekki. Þetta eru mikilvægir þættir í deginum mínum auk þess sem yogaæfingar eru oft gerðar hérna í stofunni undir söng búddamunkanna.

Tilefni skrifanna í dag er m.a. afmælisdagur bróður míns. Hann er mér líka mikilvægur, bæði sem vinur og bróðir, enda áttum við yfirleitt mjög góðar æskustundir fyrir utan eitt skipti þegar við hótuðum að drepa hvort annað. Ég get ekki munað af hverju.
Til hamingju með afmælið.

miðvikudagur, 27. júní 2007

föstudagur, 22. júní 2007



TaKK fyrir mig elsku fólk, það var gaman að fá ykkur í veislu og ekki voru gjafirnar og fjar-kveðjurnar af verri endanum. Helst ber að minnast á 2 eintök af nýjustu útgáfu íslenskrar orðabókar, en ein breyttist í 4 aðrar spennandi bækur frá Routledge útgáfunni, en það gleður mig að þær bækur séu nú fáanlegar í ágætu úrvali hér í Austurstræti.

Rice Krispies kakan (sjá hér að ofan) kláraðist langfyrst, þrátt fyrir hnuss og svei ömmu yfir vali á kökutegund og brauðterturnar voru í morgunmat daginn eftir og aðrar kökur fylltu ísskápinn í nokkra fleiri daga. Ég þakka pent fyrir mig aftur. En nú er veislustand búið og alvaran hefur aftur tekið við.

Rannsóknarvinna á fullum snúning, viðtöl og læti. Það er líka mjög gaman enda finnst mér fólk alveg frábært og spennandi og skemmtilegt. Nema þeir sem virða íbúalýðræði að vettugi og hlusta ekki á neitt nema sjálfs síns rass. Lendi eflaust í spennandi sveitaferð í kvöld og yfir helgi með frábæru og skemmtilegu fólki.

Góða helgi þegar dag er tekið að stytta.

föstudagur, 15. júní 2007

á rauðu ljosi

bærðist puntstráið á umferðareyjunni. Tíminn stöðvaðist í dag þegar ég var að fara að kaupa plastdiska og beið í röð.
Hlakka til að geta verið umvafin af náttúrunni í sumar. Liggja í grasinu meðal puntstránna.

Hlakka líka til að sjá ykkur kæra fólk á laugardaginn frá 14 - 18.

laugardagur, 9. júní 2007

Gurudev

Hingað til hef ég ekki lagt í vana minn að sækjast eftir því að hitta heimsfræga yogameistara sem draga grilljón áhorfendur að hvarvetna. En nú eftir að hafa fengið tækifæri til þess að upplifa það get ég borið þannig samkundur við tónleika. Áhorfendur eru samankomnir á einn stað með eftirvæntingu og opin hjörtu, hlusta síðan (þögulir) á boðskapinn sem á borð er borinn. Hver og einn tekur með sér það sem hann vill og skilur eftir það sem hann þarfnast ekki þá stundina. Upplifunin er persónubundin, oft byggð á fyrri reynslu og þekkingu, líkt og með tónleika. Ætli það hafi ekki verið um 150 manns komnir saman í gær og ég upplifði kynjahlutfallið nokkuð jafnt. Ólíkt rokktónleikum var klappið í lokin mjög meðvitað eða kannski bara dannað og líklega sendi hver og einn góða orku í þakklætisskyni með hverju klappi.

Upplifunin var í heildina mjög góð og ég fékk fullt í nesti til að maula, en á tímabili fór ég að efast og hugmyndir um heilaþvott komu upp en hurfu jafnhraðan og þegar Gurudev var að sýna öndunaræfingu og mér fannst hann bókstaflega svífa yfir sæti sínu. Magnað.

Í dagrenningu hannaði ég síðan yoga-stærðfræði-kennslu í svefnrofanum alveg frá a-ö. Þetta var nokkurs konar vakandi draumur. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna það gerðist en það var frábært. Hugur minn leitar kannski aftur til kennslunnar, ég veit það ekki, en þetta voru kannski einhver skilaboð um framtíðina... Hvað stærðfræði varðar þá hef ég hingað til aldrei talið mig stærðfræðisnilla, en er löngu hætt að vera hrædd við stærðfræði og finnst hún meira að segja mjög spennandi og skemmtileg.

Verð að koma því að að Skátar voru þrusu á Sirkús á fimmtudag. Það er gaman að fara á barinn og geta verið í sömu fötum daginn eftir án þess að þurfa að viðra þau. Stundum langar mig samt mikið í sígó. Ég held líka að það hafi verið sterkur leikur að setja reykingarbannið nú 1. júní til þess að fólk hafi sumarið til þess að venjast því að standa úti í ögn skárra veðri en um hávetur. Á morgun verður dúndrað í rice crispies kransaköku með aðstoð mömmu, en fyrst í partý í kvöld. Til hamingju með daginn elsku Anna Sigríður. Ást og friður.

miðvikudagur, 6. júní 2007

morr

Tónleikar í gærkveldi.
Isan
Seabear
Tarwater
The go find
Benni Hemm Hemm.

Ég kolféll ekki fyrir neinum útlenskum tónum þó, en alltaf gaman að kynnast nýrri lifandi tónlist. Nú eru dívurnar Asha Bhosle (Bollywood söngkona með meiru, en hún syngur og leikararnir mæma) og Feist uppi á pallborðinu. Kæró kominn heim eftir að hafa farið með saumaklúbbnum í skemmtiferð og færði hann heimilinu góðar gjafir eins og t.d. Kóraninn. Hann sagði það hálf halló að hafa lesið alla Biblíuna en ekki Kóraninn. Í framhaldi væri þá rökrétt að búast við að hér verði seinna tekið í Vedaritin, Tora, Eddu o.fl. Vinsamlega takið frá daginn 16. júní því þá verður veisla.

sunnudagur, 3. júní 2007

reuni

Í nótt flaug ég þyrlu yfir Atlantshafinu. Í fyrstu kunni ég það ekki og spurði þyrlufélaga minn sem ég þekki ekki hvernig réttu handtökin væru. Þau lærði ég fljótt (rétt áður en þyrlan steyptist ofan í hafið) og mér gekk vel.

Í gærkvöld hitti ég 10 ára gamla samstúdenta mína. Það var skrítið svo ekki sé minna sagt. Bekkurinn minn byrjaði á því að fara út að borða og var mæting góð þrátt fyrir að nokkrir kæmust ekki. Ísinn var ekki lengi að brotna og ég skemmti mér vel í þessum góða hópi yfir ágætum mat. Eftir það var haldið á þriðju hæð Kaffi Reykjavík þar sem öllum var stefnt saman. Þar byrjuðu skringilegheitin.

Á svona samkomum fæ ég það á tilfinninguna að maður eigi að fyllast stolti eða hroka yfir því að hafa verið í MR. Ég fékk aulahroll inn að beinum þegar ræðumaður kvöldsins steig á stokk og sagði hluti á borð við: að menntaskólaárin væru bestu ár lífsins, að MR-ingar væru bestir og mestir og mættu alveg vera hrokafullir og fleira í þeim dúr. Ég vil ekki trúa því að fólk sé enn þá fast í þessum hugsunarhætti. En þá má ég alveg spyrja sjálfa mig, hvað ég hafi verið að gera þarna? En ég gat auðveldlega getið mér til um hvernig stemningin myndi verða áður en ég mætti á staðinn. Auðvitað á þetta ekki við um alla þótt ræðumaðurinn hafi e.t.v. verið að reyna að finna leið til þess að gestir myndu fyllast samhug og ærinni gleði yfir því að hafa verið í sama skóla í ca. 4 vetur.

Síðan var drukkið. Allir þeir sem ég talaði við úr öðrum bekkjum fjölluðu um mál eins samstúdents okkar, en hann dvelur nú í fangelsi. Annars voru helstu umræðuefnin (í þessari röð): hvað gerði bekkurinn þinn áður en við mættum hingað á Kaffi Reykjavík? og hvað ert þú að gera í dag? (en þá fylgdi vanalega sagan af því hvernig maður komst þangað með). Það var gaman að hitta margt gott fólk. Sumir voru þó aðeins meira heldur en aðrir, og sögðu dömurnar líta jafnvel út og fyrir 10 árum og pöntuðu að sofa hjá sumum þeirra (bæði lofuðum og ólofuðum, gagnkynhneigðum og samkynhneigðum). Einn sagðist verða að fá að kyssa dömurnar, núna loksins þegar hann þorði að kyssa dömur. Aðrir töluðu um stjórnmál, skólamál, uppeldisaðferðir og enn aðrir um gamla kærasta/kærustur annarra heldur en þeirra sjálfra á menntaskólaárunum. Síðan var drukkið. Oft fannst mér soldið erfitt að vera þarna, en það var líka fyndið og ég viðurkenni líka vel að það hafi verið skemmtilegt. Mér finnst alveg sjálfsagt að fólk komi saman eftir að hafa deilt ákveðnum tíma lífs síns saman í misgóðum fíling, með misgóðar minningar. Það getur oft verið gaman að hitta gamla félaga. En mér finnst alveg við hæfi að fólk sleppi þessu stolti og hroka sem blossar upp á svona samkomum. Fólk breytist og tímarnir breytast, þessi umrædda skólastofnun hefur líklega ekki neina yfirburði á sínu sviði, heldur er það sagan og almenningsálitið (sem er ekki til?) sem hefur gert það að verkum að hróðri og tilbúnum yfirburðum stofnunarinnar er viðhaldið í gegnum hverja kynslóðina á fætur annarri. Síðan var drukkið.

Eftir að hafa flogið yfir hafið og skoðað borgir frá ströndinni fór ég til fjölskyldu vinkonu minnar en í því húsi var fleti þar sem einhverjir greinilega sváfu og þar var fjólublái svefnpokinn með 60´s munstrinu innaní sem hefur fylgt fjölskyldu minni lengi. Við matarborðið voru margir réttir í boði og ég fékk fisk með mjög löngum beinum í. Ég man eftir að hafa dregið eitt sérlega langt og mjótt fiskbein úr munni mínum. Fiskurinn var hvítur og gómsætur. Við borðið sat barn sem bað um rauðvín að drekka. Amman gaf því púrtvín í staðinn og blikkaði mig til að gefa til kynna að barnið myndi ekki finna muninn. Síðan var drukkið...

þriðjudagur, 29. maí 2007

Einföld hjonabandssæla

1 1/2 bolli hveiti (stundum nota ég bara spelt, eða bland af báðu)
1 1/2 bolli haframjöl
3/4 bolli sykur
180 gr brætt smjör
1 1/2 tsk natrón
1 stk egg

Öllu blandað saman í skál, gott að nota fyrst sleif, síðan bara hendurnar.

Deiginu skipt í tvennt.

Helmingnum þjappað í form (t.d. lasagna stærð)

1 krukka sulta sett yfir. Rabbabara er klassísk. Jarðaberja getur verið skemmtileg. Smekksatriði með sultuna, ég fíla hana og vil mikið, hægt að nota minna en eina krukku.

Hinn helmingur deigsins klipinn yfir.

Bakað við 175 gráður í 30-40 mín.

fimmtudagur, 24. maí 2007

Your Leprechaun Name Is:

Hairy Shortlegs

fimmtudagur, 17. maí 2007






Nýtt stutt hár, það er gaman og alls ekki eins hrikaleg upplifun og ég hafði gert mér í hugarlund. Aðrar myndir eru frá Vatnsenda. Míkrafónninn úti á túni var liður í hljóðsöfnum listamannanna sem þar voru við störf. Er að fara í helgar-sveitaferð á morgun, hlakka mikið til.

mánudagur, 14. maí 2007

bonuspononus

við skötuhjúin fórum í innkaupaferð í dag fyrir ísskápinn sem var orðinn eitthvað tómur. Eitthvað var stuttur í mér þráðurinn og ég kannski ekki sú virkasta og vildi bara keyra innkaupakörfuna og ekki hugsa neitt. Allt í lagi með það og ég var ekkert að spá í það á meðan á því stóð. Síðan var bílferðin heim svona þögn-týpu-bílferðin. Sem betur fer ekki löng. Þá áttaði ég mig og sagði, sorrý hvað ég er fúl maður, ég bara fattaði það ekki. Kæri benti mér á að það væri trúlega ekkert létt að hætta að reykja. Því er ég að vísu ósammála, þrátt fyrir upplifunina í innkaupaferðinni, og vil bara trúa því að ég geti þetta alveg og allt í kúlinu.

Ætla sko ekki að láta bösta mig feitt fyrir að stelast í sígó inní á klósetti á barnum eftir 1. júní og þurfa að greiða himinháa sekt til loftvarnareftirlitsins plús skemmdarkostnað vegna reykskynjara (sem ég verð náttúrulega búin að rífa niður með vasahnífnum).

miðvikudagur, 9. maí 2007

aftur og aftur

þá er það ákveðið. Næsta sunnudag ætla ég að hætta að reykja. Aftur. Jibbý.

mánudagur, 7. maí 2007

maun

Hún er búin að lita á sér hárið rautt, konan sem gengur götuna til og frá vinnu stundvíslega klukkan 17:00 og 08:30. Ég er ekki að spá í að lita mitt, en þarf á klippingu að halda.

Er að mála loftið hvítt uppi á lofti. Tók 2 daga í að lesa öll dagblöðin, fór á tvenna útskriftartónleika LHÍ, fór í partý á Boðagranda sjö, en þangað fór ég líka í partý hjá eldri systur minni í aðra íbúð þegar ég var barn og átti kannski ekki fullt erindi í partýið, en hvað gera eldri systkini þegar þau þurfa að passa og hanga með vinum sínum? er búin að ákveða hvað ég mun kjósa. Fannst góður bæklingurinn frá Íslandsvinum m.a. um álvinnslu. Liður í að gera manni kleift að taka upplýsta ákvörðun, a.m.k. um eitt mál sem er á stefnuskrá framboðsflokkanna.

takk fyrir kveðjurnar góða fólk.

laugardagur, 5. maí 2007

þriðjudagur, 1. maí 2007

1. mai

Ef þú legðir 15 cm langa reglustiku frá hægra munnviki mínu skáhallt yfir andlit mitt myndir þú sjá 2 myndarlegar bólur við sinnhvorn enda reglustikunnar.

Hamingja til fyrsta farþegaþotuflugmannsins í fjölskyldunni.
Baráttukveðjur til verkalýðsins.

laugardagur, 28. apríl 2007

tikk takk

Það að strákar taki þátt í hvers konar jaðarmenningu gefur þeim tækifæri til þess að renna stoðum undir karlmennsku þeirra sér í lagi vegna þess að gildi jaðarmenninga felast oft í því að upphefja karlmennsku. Stelpur, aftur á móti, sem taka þátt í jaðarmenningu verða að finna sér leið á milli karlmennskunnar í jaðarmenningunni og kvenleikans í meginstraumnum. Tímasetning stelpna til þess að taka þátt í jaðarmenningu getur því sýnt fram á það að ögra stöðluðum hugmyndum um kvenlegt kyngervi...

allt í góðum gír hérna megin.
Get ekki beðið eftir að föstudagurinn næsti renni upp. Ein vika í skil. Þangað til þarf í ýmsu að snúast, eins og laga laga laga og ég má ekkert vera að breyta eitthvað heví... því þá fer allt í eitt allsherjar rugl, eins og ég er kannski í... Ha er ég í ruglinu... ekki í augnablikinu en ég væri alveg til í að detta í ruglið núna og varpa af mér öllu eins og einni tímasprengju. 0:00:01 Búúúúmmm.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

gleðigleði

dúllurnar mínar. Ég ræð mér ekki fyrir kæti.
Var að fá bréf þess efnis að ég get rannsakað í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Mannfræðistofnunar Íslands.
Þess vegna er ég komin með vinnu í sumar.

Jíbýb´bib´bí´bbbbb

Er að reyna að ákveða titil á ritgerðina, þarf að vera búin að því fyrir morgundaginn.
yesterday´s gone, don´t stop thinking about tomorrow, it will be here... don´t you look back.
Mikil ást. Friður líka.

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Gleðilegt sumar

Í morgun tók ég sérstaklega eftir því að vetur og sumar fraus saman, enda frosinn pollurinn úti á götu. Hélt af stað í sumargleðiyoga sem endurskapar mig, mótar mig og viðheldur mér... smá frasi úr ritgerðinni sem á í raun við um svo margt í samfélaginu eins og valdið sjálft sem er erfitt að koma auga á.

Í ritgerð er þetta helst: Fyrst í dag, auðvitað á sumardaginn fyrsta, sá ég fram á þann möguleika á að klára fyrir settan skiladag, 4. maí. Held þetta verði bara skemmtileg ritgerð allaveganna fyrir þá sem hafa áhuga á menningu og tónlist og konum. Og það eru nú margir. Sendi leiðbeinandanum seinasta kaflann með bros á vör og vona að hann gangi upp þó ég vænti þess að þurfa að gera smávægilegar leiðréttingar. Þá á ég eftir að gera inngang, lokaorð og laga. Laga og láta lesa yfir. Betur sjá augu en augu og þegar ég er orðin svona niðursoðin í dós með ritgerðinni þá er soldið erfitt að sjá það sem betur má fara.

Held að lagið eigi eftir að taka mestan tíma. En ég hef ákveðið að þessi ritgerð er afrakstur ákveðinnar vinnu á ákveðnum tíma og því mun hún bera þess merki að sjálfsögðu í góðum skilningi. Eftir að ég skila henni á ég ábyggilega eftir að hugsa, oh ég hefði átt að gera svona og hinsegin. Og það er bara ok.

Nú. Nafngift verksins veldur mér höfuverk. Eða ég ímynda mér að það eigi eftir að gerast. Hef ekki einu sinni hugsað út í það nýlega, en þurfti að láta vinnutitil á umsóknir hér fyrr á önninni. Þá hljómaði vinnutitillinn ég man það ekki.... úbs. ,,Ef ég væri strákur...": jaðartónlistarkonur í Reykjavík. Best bara að fá engan höfðuverk og finna titil eða nota þennnan. Kannski er hann ekki nógu lýsandi... hvað finnst þér?

Að öðru: þá skín sólin á mig og klukkan er átta. Myrkvunargluggatjöld eru ekki til staðar í þessu húsi og útlendingurinn er strax farinn að þjást á nóttunni vegna birtu. Það væri ráð að blanda svefnlyfi út í nightcap-inn, nú eða grafa upp eldgömul svefngleraugu af Saga Class frá því þegar ég var á leið út í lönd vegna business.

Í gær var mikið húllumhæ í Boston þegar brósi spilaði útskriftartónleikana sína þar í borg. Til lukku elsku Doddi. Ekki amalegt að vera tónlistarmeistari. Spurningin er hvað maður gerir við þannig lagað?

Come on, I´ll buy you a drink... er ein af uppáhaldssetningum mínum úr Dallas en það getur átt við að fá sér drykk heima á Southfork. Einu sinni vildi ég eiga heima þar. Ekki lengur. Fer kannski einhvern tímann í heimsókn en margar útisenurnar fyrir utan Southfork voru teknar upp í stúdíói sökum mikils vinds á svæðinu.

mánudagur, 16. apríl 2007

Flottheit

niður götuna gengur maður með pípuhatt.
Á mánudagskvöldi þegar klukkan er að ganga sjö.

Epli, ýsa og karrý eru kvöldmaturinn.
Kampakát yfir mínu góðæri.

föstudagur, 13. apríl 2007

sol i rigningu og sma snjo




sökum anna hefur ekki verið mikið líf hjá mér í netheimum nema þá helst til að uppfyllast andagift frá öðrum. Upplifun páskafrísins var nokkurn veginn í þessari röð sem voru jafnframt hápunktarnir: sveit, skrif, tónleikar og auðvitað páskaegg. Ljúf er lítil gjöf var málshátturinn minn sem ég kannast ekki við. Kannski er þetta einn af nýju málsháttunum. Leifar eggjanna má enn finna inni í ísskáp eftir að páskaeggið sem Lofthótel fékk fyrir gistinguna bráðnaði í sólinni á eldhúsborðinu. En örvæntu ekki því það var borðað þrátt fyrir að vera bráðnað og ég er ekki frá því að það bragðaðist betur nema nammið var soldið klesst.

Og ég skrifa eins og vindurinn. Eða mér finnst það allaveganna og ekki væsir um mann í vindinum í dag.
Á döfinni er að skrifa meira og hugsa meira. Hugsaði t.d. í dag um birtingu fjölmiðla á stjórnmálakonum í fyrirlestri hjá Karen Ross sem fjallaði á mjög skemmtilegan hátt um efnið. Þessa dagana leitar hugurinn þó upp á loft þar sem mig langar að mála veggi loftsins og endurskipuleggja. Þegar ég fæ þannig flugur í hausinn vil ég framkvæma strax. Það má samt ekki núna. Kannski verður birt saga um þann gjörning á þessari síðu í sumar.

Læt fylgja með 2 myndir, önnur er af glæfralegu dekki sem grófst í nýlagðar túnþökur við Laugardalshöll. Hin er af Brown Booby. Góðar stundir.

mánudagur, 2. apríl 2007

bara verið að blogga

mánudagur í boði FL (group)
þar sem rímurnar drjúpa af vörum og taktarnir trylla Frá heimsenda. Forgotten lores.
Lestur dagblaðanna lætur mig hlægja og ég veit ekki hvað skal segja. Ég vil breytingar takk. Og er ekkert ein um það. Koma svo. Fíla úrslitin í Hafnarfirði. Fíla að það sé vísir að íbúalýðræði. Fannst mikið koma til mótmæla skólabarna í Hafnarfirði þar sem þau vísuðu í sjálf sig sem framtíðina og spurðu af hverju þau væru ekki spurð?

Gabbaði 1.apríl gagn í gegnum gsm-síma og netið. Það veitti ekki sömu líkamlegu gleði og á sér stað þegar maður verður áþreifanlegt vitni af gabbinu. Er semsagt ekki búin að fá mér sæta gælu-rottu.

Páskið í nánd. Pálmi í gær. Allt gult. Vona að sólin fari að vakna aðeins betur.
Það er álfakokkur í eldhúsinu sem kallar upp úúú og fær móðu á gleraugun og æfir brúðarmars Wagners í huganum.

þriðjudagur, 27. mars 2007

timi til að tengja

góða kvöldið hr. Tengingi,
Tenging átti sér stað um hádegisbil, þar sem miðjan var í aðallhlutverki. Merkilegt alveg hreint. Ég segi það enn og aftur, ég elska yoga.

Eftir afkastamikinn dag, undir áhrifum orkuendurnýjunar fyrr um daginn, hlusta ég á tónlist, því hana elska ég líka hr. Tengingi. Síðan er komið að sjónvarpsglápinu mikla. Hvort það verður Dallas, Prison Break, 24, Little Miss Sunshine, Heroes, Rome eða eitthvað annað veit ég ekki og því skrifa ég þetta bréf, hvað heldur þú að horft verði á?

Í leiðinni viðurkenni ég líka fyrir þér að hafa orðið starsýnt á bækur í hillum í dag og hugsað með mér hvers vegna ég hefði lesið 2 skáldsögur hérna fyrr á önninni? hvernig ég hefði haft tíma fyrir þær með allt þetta sjónvarpsefni?

Góð sveifla í vændum, það bara verður að vera þannig, einbeitingarsveifla fyrir skólann.
í friði.

mánudagur, 26. mars 2007

Ísjaki






Eftir hádegi í dag, nánar tiltekið frá klukkan 13:30 til 18:30 stóð yfir afþýðing á frystihólfi ísskápsins.

fimmtudagur, 22. mars 2007

fjallahringurinn

Það er gaman að fara Geirsgötuna núna því Esjuna má sjá frá nýju sjónarhorni.

Nú gæti ég t.d. verið að gera skattaframtal.
En það sem hefur á daga mína drifið er t.d. leghúsferð og tónleikar Ólafar Arnalds.
Seinustu helgi fór ég semsagt bæði fös og laug í leikhús. Leg er söngleikur undir áhrifum teiknimyndasögunnar. Framúrstefnuleg pæling um hvernig efnishyggjan er að gegnsýra okkur. Góð skemmtun. Fínt að taka svona leikhúshelgi. Umfjöllun um Draumalandið hér að neðan. Það afgreitt.

Ert þú búin/n að skrifa undir hjá Framtidarlandid.is?

Tónleikarnir voru afbragðs upplifun. Svo ekki sé meira sagt. Virkilega gaman að upplifa Nasa á forsendum lágstemmdar tónlistar þar sem áhorfendur sýndu tónlistarflutningnum þá virðingu sem hann kallaði á. Áhorfendur þögðu semsagt. Klingdu ekki glösum né mösuðu út í eitt. Ása masar í símann. Mjög gott stöff.

Annars er það Pierre Bourdieu hinn franski sem á hug minn allan þessa dagana. Hann bendir á skemmtilega punkta í því hvernig við sköpum og viðhöldum menningunum okkar. Hvernig smekkur mismuandi hópa fer eftir því umhverfi sem þeir búa við og fjárhag. Kannski engar nýjar fréttir... En menningarsviðin eru mörg og ólík (t.d. há- og lágmenning) og eru að sjálfsögðu undir áhrifum þeirra sem taka þátt auk þess sem þau sjálf hafa áhrif á þátttakendurnar. Síðan er ég jafnvel að fara að henda mér í það að lesa um hvernig má færa skynjun eyrans (ekki endilega á tónlist) í ritað mál, eða allaveganna taka hana með.

Veðrið er ekki alveg að gera sig fyrir mig.
Sat inni í kyrrstæðum bíl og horfði á Volvo gröfu slétta moldarhól í dag. Kodak moment.
Horfði líka á þumalfingur hægri handar skrifa sms á gsm (global service mobile) í dag. Ótrúlegt hvað þessi putti getur gert.
Fór líka í yoga þar sem þemað var þríhyrningar, bátur, borð og kráka. Horfði á skuggann minn sem kertaljósið varpaði á vegginn og velti því fyrir mér hvort hann væri líka ég.

þriðjudagur, 20. mars 2007

happa

ég er ekkert hætt að trúa á hugarorkuna....
en ég vann ekki neitt í happadrættinu.
Systir mín var svo góð að aumka sig yfir mér og gefa mér eina rauðvínsflösku af sínu góssi sem hún fór með heim. Flöskuna prýddu 2 páskaungar. Bjarni Ara kom og söng 4 lög. my my my delilah & pretender og svona. Stuð. Hvatti fólk til að kaupa plötur sínar, þ.á.m. plötu gefna út 1993. Stuð. Hann er pottþétt betri en ég í karókí. Sem minnir mig á hversu langt síðan er síðan ég fór í karókí.

Er eitthvað voða mikið að hugsa núna að slaka á, njóta og klára bara ritgerðina í sumar. Þá get ég notið þess að grúska í henni og umfaðma hana. Allt í góðu standi og ég bið ykkur vel að lifa.

laugardagur, 17. mars 2007

Hapolitiskur spennitryllir: Draumalandið

Það fellur mér í geð að fara í leikhús. Þangað má ég fara inn og dvelja um stund í öðrum raunveruleika. Raunveruleikinn var einmitt mikið til umfjöllunar í sýningu gærkvöldsins, frumsýningu á Draumalandinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Andri Snær sat fyrir aftan mig. Það hlýtur að vera skrítið að skrifa bók sem selst í bílförmum og fær verðlaun og umfjöllun og endar á fjölunum. Heimurinn sem var skapaður á sviðinu var kaldur og hvítur. Vídeólist sýningarinnar var interactive og tóku leikararnir virkan þátt í þeirri framleiðslu. Þú verður að fara og upplifa Draumalandið í leikhúsinu. Það er æði. Í alvörunni. Bíddu. Draumaland hvers? Spurningin er kannski bara hvað get ég gert? Hvað skiptir máli í raunveruleikanum?

Leikhópurinn var alveg prýðilega samsettur og er erfitt að segja valin kona í hverju hlutverki því persónusköpunin var ekki fyrir staðar, heldur brugðu leikarar sér í ýmis gervi eins og krúttfemínistann með melódíkuna og þýska útlendinginn sem voru einmitt báðar konur til að varpa ljósi á umfjöllunarefnið. Sem er?

Umfjöllunarefnið voru margar litlar senur sem við öll höfum lent í, ákkúrat í raunveruleikanum. Senur þar sem maður endar á því að spurja, æi, hvað vorum við aftur að tala um (eftir að hafa talað um hvað sé hagvöxtur?)?, hvort allt fari í klessu ef við stækkum ekki álverið í Straumsvík og þar sem konan er náttúran, táknmynd dóttur okkar, landsins Íslands sem við eigum að passa, hreina og fína. Hugmyndir um konuna tengda náttúrunni og manninn menningunni vakna í kjölfarið. En ég velti því líka upp hvers vegna konur flykkjast til vinstri þessi misserin?

Álið er málið. Enda snýst þetta um að planta bráðnauðsynlegum álverum út um allt, ekki satt? Álverum sem koma til með að skapa einu og hálfu prósenti þjóðarinnar atvinnu. 1,5%. Atvinnuleysið hefur verið um 1% að mig minnir. Hvað er aftur málið? Álið? Nei. Það er svo margt annað sem hægt er að gera. Eitt af markmiðum Draumalandsins fyrir mér er að benda á að úr verður ekkert rosa drama ef álið er ekki málið. Við getum breytt því. Hvernig viljum við hafa umhverfið okkar? Hvað skiptir okkur máli?

Leikritið býður upp á margar hugmyndir, þ.á.m. hugmyndinni um að sleppa því að virkja Kárahnjúka og láta mannvirkið standa með listaverkinu sól eftir Ólaf Elíasson til þess að sýna fram á það að maðurinn ráði yfir tækninni. Þar aftur má benda á tenginguna milli náttúru og manns (tækni). En það var kúl hvernig leikritið tók með í leikinn þá umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu eftir að bókin kom út, m.a. þá vakningu sem hefur birst í stofnun ýmissa Sólar-samtaka hér á suð-vestur horninu. Og það var svolítið skemmtilegt hvernig bókin Draumalandið rifjaðist upp fyrir mér með sýningunni.

Umgjörð sýningarinnar var einföld og tímalaus þó efni hennar sé einmitt á réttum stað og á réttum tíma. Það er engin tilviljun að þessi leiksýning hafi verið sett á svið núna. Til þess að við vitum hvað við viljum verðum við að hafa aðgang að upplýsingunum. Draumalandið er ekki matarskammtur, heldur meira svona smakk, þar sem maður fær tækifæri til þess að hugsa um (m)álið. Auðvitað ræður hver og einn hvaða upplýsingar hann tekur úr sýningunni sem hafði yfir sér mjög svo póstmódernískan blæ þar sem annaðhvort enginn sannleikur sé til eða að enginn sannleikur sé réttur. Allir í leikhúsið. Keep it real.

fimmtudagur, 15. mars 2007

gummuladi

Hlýjar afmæliskveðjur til Lúxembúrg, svona í upphafi færslu kvöldsins.

Aðþrengdar eiginkonur voru sko aðþrengdar í kvöld. ha. Mér fannst þátturinn góður fyrir utan endirinn, ég hefði viljað sjá aðra lausn en að Lynnette gæti reddað dæminu í draumnum. Samt er ég nú á því að maður geti haft áhrif á framvindu drauma sinna upp að vissu marki. Og ætli það eigi þá ekki líka við um dagdrauma?

Draumur minn er að vinna ferð fyrir tvo til Evrópu með Flugleiðum. Það mun gerast n.k. þriðjudag, nánar tiltekið um kvöldið þegar ég fer á happadrætti. Á morgun fer ég á leiksýningu, þá fyrstu í langan tíma. Félagslífið í stuði og ég er geim. Ég verð bara að vera það. Flæðið býður ekki upp á annað.

Lofthótel upptekið þessa dagana. Gott að gera. Mjög gott að vera.
Ætti að bregða fyrir mér einni limru eða svo en útvarpið kallar. Nú er það útvarpsþátturinn Marzipan á Rás 2.

þriðjudagur, 13. mars 2007

í sveitinni

seinni partinn í dag, allt til klukkan 20:30 leið mér sem ég væri í sveitinni. Fyrir utan nokkrum sinnum þegar ég leit út um gluggann á götuna. Annars var það frekar regnið, tónlistin og galopnir gluggar sem læddu þessari sveitatilfinningu inn. Það var grá ró.

Ef til vill þyrfti ég að þróa þennan tilfinninga-hæfileika til þess að geta horfið í sveitina hvaðan sem er á þriðjudagskvöldi, svolítið eins og Hiro. Eða kannski var ég að mótttaka skilaboð um að ég ætti að fara út í sveit. Að elta gamla geit.

Þessi misserin elda ég á þriðjudögum og fimmtudögum. Þegar ég geri hummus byrja ég á því að fjarlægja húðina af kjúklingabaununum eftir að ég hef haft þær stutt í vatni. Það tekur líka sinn tíma og kannski var baunapillingin hluti af sveitastemningunni. Næst ætla ég ekki að setja hvítlauk í hummusinn og hef haldbærar upplýsingar um að það sé ekki nauðsynlegt. Fleira fallegt kom upp í sveitasælunni í kvöld sem ekki verður tíundað hér.

Ég reyni eftir bestu getu að halda mig við skólaefnið. Það er gaman þó það sé stundum erfitt þegar maður vill frekar bara sitja við eldhúsborðið og drekka kaffi og hlusta á útvarpið og lesa um dvöl DiCaprios og Sports Illustrated kærustunnar uppi á jökli eða um reddingarnar sem eru í gangi á Alþingi og Hans Blix varðandi samskipti BNA og Íran sem hann segir vera pre-invasion replay frá Írak.
Yogað í dag var gott og ég varð ljón um stund.

föstudagur, 9. mars 2007

Sporðdrekinn í dag: Það sem þú gerir í dag og á hvaða hátt þú gerir það, mun skipta mjög miklu máli.

Svona er dagurinn minn einmitt búinn að vera. Þaulskipulagður en með mjög skemmtilegum uppákomum sem vonandi eiga eftir að skipta miklu máli. Nánar um það síðar.

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir eru komnir nýir tenglar inn á síðuna. Þetta eru dúllurnar. Saman ætlum við að rannsaka mannfræðilega. Það verður gaman. Allaveganna plan eftir planið. Planið er sko að klára ritgerðina mína. Það er í vinnslu.

Að öðru mun merkilegra. Tíminn. Ég næ ekki utan um það hvernig hann getur liðið svona ótrúlega hratt. I know. Klisja. Var einu sinni að skrifa ensku útgáfu orðsins í menntaskólastíl og fékk meira að segja að kíkja í orðabók kennarans. Náði samt að klúðra því. Ætla að hlífa þér við sjónrænni tortímingu á orðinu hér. Já ég er semsagt að upplifa klisju varðandi tímann. Heyrði líka framlengingu á klisjunni sem er að tíminn verði hraðari eftir því sem maður eldist. Eða að maður upplifi tímann hraðar eftir því sem maður eldist. Ég veit ekki hvort ég get tekið undir það, en trúi frekar á mismunandi hraðatímabil. Það fer allt eftir því hvernig maður keyrir bílinn og hvernig vegurinn er, jafnvel veðurskilyrðin og hinir bílarnir sem eru á leiðinni frá a - b. Hitti sólina í dag í örskotsstund. Eftir eina uppákomuna, mjög nauðsynlegt. Hún gaf mér bensín.

2 litlir frændur mínir laskaðir eftir áhlaup á aðra manneskju (afleiðing: nefbrot) og smá slagsmál. Sendi orku til lemstranna. Hef aldrei átt hamstur.

miðvikudagur, 7. mars 2007

klammari

í umræðunni hafa verið fjölmiðlar, klám, fyrirbærafræði, tilvist, aðhygli og ætlandi hér við eldhúsborðið með nýjasta íbúanum hér heima sem er á hótel lofti.
Klámkvöld í kvöld. Nokkuð spennandi. Fair-Trade klám? Verðlaun verða ekki veitt að sinni. Doddi og Petra átu upp alla pizzukúponana eftir síðustu getraun. (ekki örvænta, gjafakortin eru í pósti).

Fannst mér jafnvel finna fyrir smá yfirbragði vors seinni partinn í dag. Dró sjálfa mig strax í efa, enda bara byrjun mars. Sá smá tunglið um helgina. Það var dekkra en vanalega. Hvar voru varúlfarnir? Verð að fara að þvo pott fyrir hrísgrjónin. Seinustu upplýsingar voru að það vantaði banana...

föstudagur, 2. mars 2007

ljomandi koppur

Í gær fór ég í lautarferð upp í Heiðmörk. Einnig var farið í skógarleiðangur eins og gefur að skilja. Fyrst var byrjað að planta 1949. Sem gerir trén sem ég var með 58 ára gömul. Viðmiðið var skógurinn í Kanada. Já þar er bara einn skógur..., eða allaveganna þær minningar sem sitja í mér og ég er eitt stykki kona með eitt stykki líkama. Eða ég get líka sagt að líkaminn sé ég. Það er samt soldið erfitt því líkaminn er oft bara einhver hlutur sem fer með manni allt. En ég held nú samt ekki. Ætla ekkert að fabúlera meira um líkamann sem geymir svo margt. Leiðangurinn var í stuttu máli skemmtilegur og mjög gaman að fara í Heiðmörk. Ég sá ekki verksummerki eyðileggingar eins og hefur verið í fréttunum að undanförnu og ég tók ekki með mér hund inn á vatnsverndarsvæðið.

En í dag gekk ég fram á gröfumann, sitjandi inni í stjórnklefanum sínum. Hann var með naglaþjöl að pússa á sér neglurnar.
Í dag barst líka bæklingur Nexus (fyrsti sem ég hef séð) inn um lúguna. Mér langaði í allt. Líka að fara að læra að spila hlutverkaleiki. Þar er skipt í hópa eftir aldri með þaulvönum stjórnendum. Hvort Nexus sé orðið að stórfyrirtæki veit ég ekki. En fyrirsagnirnar voru grípandi æsilegar. Turtles Bíll. Kawabunga. Leonardo var minn uppáhalds. Sverðið hans Luke. Warhammer kallar. Dót til þess að mála þá og náttúrulega bækur og dvd. Kawa bunggggaaaa.

Nú ætla ég að gæða mér á uppáhaldsmat Turtles sem er? (verðlaun verða veitt fyrir rétt svar).
góða helgi til þín. Ég sé allaveganna fram á eina góða...

þriðjudagur, 27. febrúar 2007

sultanas

má bjóða þér pizzu?

já, takk, fékk mér einmitt pizzu með rúsínum í draumnum mínum í nótt.
namm.

(þetta voru sko ljósar rúsínur, held þær heiti sultanas upp á enskuna).

sunnudagur, 25. febrúar 2007

föstudagur, 23. febrúar 2007

freaky friday

á leiðinni út í sólina eftir góðan vinnudag. Held allaveganna að það sé sól úti... Sé bara himininn sem er einmitt blár í dag. Hann er sko ekkert alltaf blár. Sá ekki eldorgelið á Austurvelli í gær, en ætla að þiggja tónleikaboð Hlaupanótunnar (sem er náttúrulega uppáhalds útvarpsþátturinn minn) í kvöld. Er í smá bobba hérna, verandi prinsípp manneskja. Vetrarhátíð í gangi sem ég ætla að taka þátt í, á strigaskóm. Líður ekkert of vel með það að þurfa að vera svona á skjön.... he he he. En finnst bara ótækt að vera í öðrum skóm heldur en strigaskóm um þessar mundir þegar sólin skín.

Hamingjuóskir til vinahjóna minna sem eignuðust sitt fyrsta barn í morgun.
Og kveðja til Kötu sem ég vil hitta brátt með glundur í glasi.

Góða helgi góðir hálsar.

miðvikudagur, 21. febrúar 2007

breakthrough

report: Búin að fá aðgang að vinnuaðstöðu upp í skóla þannig að það er mikill munur. Nú fer ég á annan stað til þess að ,,vinna". Heimilið ekki lengur eins mikið undirlagt.

State of disarray. Eða nei.
Allt í fínu flæði hérna megin.

föstudagur, 16. febrúar 2007

fimmtudagur, 15. febrúar 2007

draumur

Ég byrjaði á því að fara í heimsókn til Heimis vinar míns upp í ris. Í þann mund að mig bar að garði voru einmitt 3 vinir hans að fara frá honum. Heimir braut saman þvottinn, sýndi mér baðið sem hann var búinn að koma vel fyrir inni á baðherbergi (undir risinu). Nýr leigjandi (kvk) var byrjaður að leigja með honum auk þess sem hann leyfði mér að finna lyktina af hreinni jojoba-olíu úr stórri glerkrús uppi í hillu. Ég furðaði mig á því að hún var nánast lyktarlaus.

Eftir að ég fór frá honum fór ég á tónleika í stóru húsi niðri á höfn. Þar inni var margt um manninn. Fyrsta manneskjan sem ég kannaðist við var ein af bloggdrottningum landsins. Hún kallaði á mig og ég settist hjá henni. En við vorum á bar-svæðinu en tónleikarnir voru lokaðir af í öðru rými. Við borðið hjá henni sátu 2 menn, óskyldir. Einn var í síðum leðurfrakka og gerði góðlátlegt grín að drottningunni, alveg eins og ég hafði gert í huganum. Ég stoppaði stutt hjá þeim og hélt inn á tónleikana.

Eftir það fór ég í sund. Þetta var innisundlaug. Um leið og ég var komin ofan í vissi ég að ég hefði synt þarna áður af botninum að dæma. Ég vissi hvernig landið (sundlaugin) lá. Þessi sundlaug var með tæru vatni en gluggar hússins sem hún var hluti af voru fokheldir og með glæru plasti í í stað glers. Þarna synti ég í mestu makindum og þegar ég var að koma út í dýpsta hlutann hitti ég Arnar frænda minn í lauginni. Við syntum aðeins saman. Það var bara gaman.

já, það var semsagt mikið að gera hjá mér í nótt, nú er ég búin að fara í sturtu og vekja mig almennilega. Dagurinn bíður með spennandi verkefni. Vona að þú njótir dagsins.

föstudagur, 9. febrúar 2007

ríkið

Í dag greip ég eina hvítvín og fór að kassanum.
Afgreiðslumaðurinn virtist hinn viðkunnalegasti og eftir venjulegt góðan dag í báðar áttir spurði hann:
á bara að skemmta sér um helgina?
ég: já, hafa það huggó
átvr: þá gera það 1390 krónur.
ég: afhendi honum debit kortið
átvr: (skoðar kortið) já ertu sporðdreki?
ég: hmm, já
átvr: ég hef verið með 3 stelpum sem hafa verið sporðdrekar og það bara gekk ekki
ég: mhm
átvr: já ég þekki sko sporðdreka, en þær voru bara soldið klikkaðar
ég: einmitt....

Held ég ætli ekkert að taka upp á því að tileinka mér þessa klikkun sporðdrekakvennanna ríkisstarfsmannsins.
Góða helgi.

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

mið

Mér likar vel norðanáttin. Nóg af sól. Nóg af kulda.
Í síðastliðinni hitabylgju fannst mér notalegt að sofa við opinn gluggann. Það á ekki við lengur. Nú er kalt. Um þessar mundir les ég einmitt An Inconvenient Truth bók Al Gore. Nett sjokk í gangi hjá mér. Ég vil bjarga jörðinni, en þú?

p.s. heyrði í góðum útvarpsþætti á Rúv um daginn vísað til minnar kynslóðar fólks sem lætur sig náttúruvernd varða, en orðið sem notað var, var NÁTTÚRUHAUS.

þriðjudagur, 6. febrúar 2007

heilinn minn

hvort sem það er ég er heilinn minn eða ég og heilinn minn þá er ég búin að vera með það lag einmitt á heilanum í allan morgun. Poppuð lína sem getur ekki hætt í hausnum á mér. Það er hið besta mál enda held ég pottþétt með því lagi, þó heilabúið sé kannski ekki alveg í stakk búið að hafa þetta lag í bakgrunninum á meðan skóladót er lesið.

gefðu mér eina pepsí
dúndur dósagos

laugardagur, 3. febrúar 2007

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

frettir

Ákvað að klippa bút úr fréttatilkynningu þar sem mér er málið kært.

Fimmtudagurinn 1. febrúar
Curver + Kimono kemur í búðir en henni er dreift af Smekkleysu.
Á þessum degi var einmitt fyrsta freak-mixið gert fyrir fjórum árum

Föstudagurinn 2. febrúar
Útgáfupartý auk ljósmyndasýningar úr teboðinu í gallerí AugaFyrirAuga á Hverfisgötu 35. Þar verður boðið upp á
léttar veitingar milli klukkan 21:00 og 00:00.
Á miðnætti mun Curver þeyta skífum það sem eftir lifir nætur á Sirkús.

Laugardagurinn 3. febrúar
Curver og Kimono halda þriggja klukkutíma spunatónleika í Gallerí
Kling og Bang, Laugavegi 23. Tónleikarnir standa frá klukkan
16:00-19:00 og hugsaðir meira sem hljóðinnsetning sem gestir ganga
inní sækadelískan hljóðheim Curver + Kimono.

þriðjudagur, 30. janúar 2007

með i leiknum

dring drrriiinnng.
ansað:

a. sveinbjörn...
(mikil læti í bakgrunninum)
b. hæ (hik) er elsa heima?
a. ertu ekki að djóka? hringdu aftur eftir þrjú korter...
lagt á.

alveg rétt, handboltinn.
ok. ég fer þá bara að gera eitthvað annað.
bæ.

sunnudagur, 28. janúar 2007

get your funk out

raftónleikar myrkra músíkdaga í Salnum á föstudaginn var.
Já já já. raf haf.
Umgjörð tónleikanna, staður og tónleikaröð, ásamt þeim sem léku verk sín er allt hluti af senu hér á landi sem gæti kannski flokkast sem hámenning. Þ.e.a.s. að tónlistarfólkið sé menntað og búið að vinna sér inn ákveðna virðingu innan ákveðins hóps tónlistarfólks (ekki stór sökum fólksfæðar á landinu) sem allt hefur t.d. menntað sig á svipuðum stöðum, er á sama aldri, í sömu stétt o.s.frv. Sumir myndu kannski nota orðið tónlistarelíta fyrir hópinn og forvitnilegt verður að skoða endurnýjun þessa hóps sem er kannski í startholunum með nýrri kynslóð rafskálda. Ætli sú kynslóð sem nú er að vaxa upp komi til með að þróast í elítur... hámenningu og lágmenningu eða er það strax byrjað? Skiptir menntun tónlistarfólks öllu máli? Færðu meiri styrki til þess að rembast við að lifa af tónlistarsköpun þinni ef þú ert búin að mennta þig hér og þar?

Flest verk tónleikanna voru samin árið 2006 af hvítum millistéttar karlmönnum yfir þrítugt. Öll verkin hljómuðu eins og eitthvað annað sem ég hef heyrt, kannski á tónleikum á reykmettuðum börum á sunnudagskvöldi. Það var spes að horfa á þá stíga eina upp á svið, kveikja á tölvunni og fikta í henni. Sumir voru með skalla. Aðrir með ístru. Uppáhalds var The inner voice eftir Marius Baranauskas. Það eins og fleiri verk voru leikin af geisladiski og höfundar ekki viðstaddir (þá erlend tónskáld). Eitt verkið var fyrir bassaklarinett og tölvu. Þá spilaði bassaklarinettuleikari með tölvunni sem tónskáldið stjórnaði, ábyggilega í einhverju hardcore forriti sem skáldið bjó sjálft til. Áhorfendur voru kannski 10 - 15. FUnkyStuð.

Annars er bara sunnudagssíðdegi og borðið er í málun. Ákvað að nota vatnsþynnanlegt lakk. Saumavélin (sem var keypt fyrir tilstilli kærastans á markaði í Köben og tekin með í flugvélina, þung, græn að lit) er í láni og því get ég ekki saumað dúk. Kann heldur ekki að sauma í hring. Bara fram og til baka.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

innlit utlit

uppúr tíu í morgun fórum við pabbi á bílskrímslinu hans og sóttum sex stóla. Skrímslið getur komið sér vel þegar það hentar. Annars er ég yfirleitt á móti svona bílskrímslum sem eyða miklu, hafa læti, menga gommu og keyra yfirleitt um bara með einn innanborðs.

En stólarnir eru fallegir og ég er að byrja að verða vinur þeirra. Nú passar eldhúsborðið ekkert sérlega vel við að mati tískugúrúanna... mér datt í hug að sleikja það bláu skipalakki, en til þess þarf ég skemmuna sem ég minntist á hér á mánudaginn, því gufurnar eru líklega ekkert spes svona inni á þriðju hæð.

Annars er það helst á döfinni að fara upp á loft og finna út hver skaut JR?

mánudagur, 22. janúar 2007

manudagur

Í dag hækkar fullorðinsfargjald strætó upp í 280 krónur. Það eru næstum 2 lítrar af bensíni. Eins og gestgjafinn í Kópavogi benti á þá undrar maður sig á því hvernig Akureyri getur boðið ókeypis í strætó. Hópur fólks hélt í ævintýraferð upp í Kópavog í gær í strætó. Það var gaman. Börn og bakkelsi.

Hljómsveitin Sólstafir hélt tónleika í Nýló á laugardaginn. Þar var nettur sviti í gangi og hljómsveitarmeðlimir allir með þétt skegg. Söngvarinn sem er líka gítarleikari notaði hljóðfærið óspart sem framlenginu karlmennskutákns síns. Í rokkinu hefur kynímyndin snúist við að sumu leyti. Í samfélagi okkar er það konan sem er kynímyndin og er sett fram sem hlutur sem menn girnast. Rokkið er karllægur heimur þar sem konur eru í minnihlutahóp. Uppi á sviði eru þeir miðpunkturinn, hluturinn sem áhorfendur sjá og þrá. Þannig eru karlkyns-rokkarar orðnir að n.k. kynímynd uppi á sviði. Í framhaldi af því er ég að spá í því hvernig androgyny hefur verið í ,,tísku" að undanförnu. En bæði hafa konur sótt fram í rokkinu og ímyndin af indí-rokkaranum er oft (barnalegur) skegglaus maður /strákur (kannski með hýjung). Á tónleikunum á laugardag var spiluð heví-metal-rokktónlist. Þar virtist andinn annar og karlmennskan sveif yfir vötnunum. Tónleikarnir voru ágætir, en meira þótti mér koma til sýningarinnar sem er í gangi í safninu og gólfsins sem er þakið góðu lagi af ójafnri niðurþjappaðri mold sem gerir hljómburðinn í Nýló mun betri og mjúkhart undirlagið gerir það að verkum að það er átakslaust að standa í góðan tíma, stappa fætinum og hrista hausinn í takt við hraða tónlistina.

Það er tekið að dimma, ný vika framundan. Undanfarið hefur staðið yfir leit að eldhússtólum. Búið er að þræða helstu húsgagnaverslanir bæjarins þar sem útsölur og kostakaup eru aðalatriðið. Vandinn er að þrátt fyrir þessa ítarlegu leit höfum við ekki komist að niðurstöðu né fundið stóla sem sameina alla þá þætti sem leitað er að. Það pirrar mig. Stólarnir hennar ömmu voru fluttir inn fyrir fjörutíu árum, 1947, og enn eru þeir stöðugir og fínir. Nú væri ráð að hafa skemmu úti í garði, fullbúna smíðatækjum þar sem maður gæti sleppt sér og hent í fjóra stóla eða svo.

þriðjudagur, 16. janúar 2007

æblekage

,,undskyld (rop) æblekage"

sælla minninga í dönsku flutningaskipi hérna í Reykjavíkurhöfn. Fyrstu dönsku orðin sem ég lærði fyrir utan Anders, en ropið var á íslensku enda var dönsku appelsíni dælt í okkur krakkalingana sem fengu að fara með pabba í skipið. Ég ímynda mér að eplakaka hafi líka verið í boði.

Nú í dag bakaði ég eplaköku. Og brauð. Og kvöldmat. Ég er útbrunnin á útopnu.
Kærkomin ró við matargerð.

Búin að skrifa eins og vindurinn. Það er sko gott. Í kuldanum. Núna eru t.d. fingurnir á mér kaldir innað beini. Í dag fannst mér ég sjá bláar æðarnar. Fannst ég verða að blogga, leið hálf illa með að hafa henginguna þarna efst. Brazilian Girls eru alveg að gera sig.

mánudagur, 15. janúar 2007

ur hadegisfrettum RUV:

,, ... ekki fór betur en svo að höfuðið af hálfbróður Saddams slitnaði af við henginguna..."

sunnudagur, 14. janúar 2007

uppskrift

alveg meinhægt fer þessi janúar af stað. Ímynda mér að færðin og veðurfarið hafi þar mikil áhrif. Er samt að fara að verða tilbúin að byrja ferlið. Alltaf nýtt upphaf, nýr endir... passar það að það sé inni í einu ferli? Eða er ferli bara köngulóarvefur sem hefur grilljón ný upphöf og nýja enda? Ekki semsagt beinlína.

Bein lína,
ÞJóðarsálin,
Tökumst á
um sóðamálin...

Búin að prjóna smá uppskrift að ritgerðinni. Þarf bara að vinda mér í það að gera uppskriftina.
Yogað byrjað. Það er æði. Bíð eftir að sundið byrji... ég er alltaf að bíða eftir því. Ég elska að fara í sund. En ég á bara erfitt með að gera það reglulega. Ljúfur sunnudagur í gangi, enda te í bolla og píanóleikur í bakgrunninum.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

12 teskeiðablus

hvílíkur munur það er, að vera löggildur eigandi 12 teskeiða.
Hingað til hefur ekki farið mikið fyrir teskeiðum fyrir utan 1 sem datt ofan í veskið mitt þegar Icelandair var enn með stálhnífapör - semsagt fyrir langa löngu, auk nokkura skeiða af mjög dularfullri stærð úr geymslu foreldra minna, stærð sem er einhvers staðar á milli matskeiðar og teskeiðar. Nú, aftur á móti, fylgdi með í einum jólapakkanum sett af 12 teskeiðum og 12 kökugöfflum úr stáli. Eða einhverju svona sem glansar. Ekki áli og ekki silfri... kannski álstálblöndu? úr hverju eru svona áhöld? Og nú er gaman að fá sér kókómalt, hunang út í teið og krydd í kryddblöndur sem er kannski það helsta sem teskeiðar eru notaðar í á þessu heimili. Kökugafflarnir hafa aldrei verið notaðir, þannig að ætli ég þurfi bara ekki að skella í köku til þess að geta notað þá. Eða henda í snittur í morgunmat...

Annars er ég búin að vera með hugann við blús undanfarna daga, enda sit ég hraðnámskeið í samberandi tónlistarfræði með áherslu á blús í skólanum. Það ætti að vera góð byrjun á þessari skólaönn. þ.e.a.s. að fara í skólann. En ég ,,þarf" ekki að mæta neitt í skólann á þessari önn sem óneitanlega hefur sína kosti og galla.

Þessi kuldi fer bara ágætlega í mig. Brakið í snjónum er gott undirspil. Kuldinn nístir inn að beinum og þannig hefur maður ærna? ástæðu fyrir því einmitt að hanga inni hjá sér. Sokkabuxur og gammósíur eru nauðsynlegar fyrir konu eins og mig sem ferðast lítið um á sumardekkjunum. Datt einmitt í hug í dag að klippa neðan af bómullarsokkabuxum til þess að nýta þær betur eftir að tekið hefur að glitta í fagurmálaðar táneglurnar sem eru loksins að ná 25 centimetrunum, ég veit, bráðum get ég sótt um í heimsmetabókina.

Ást og friður.

laugardagur, 6. janúar 2007

flugeldur

sprengjulætin dynja yfir og í gærkvöldi var kveikt í köku fyrir mig sem gladdi mig mjög, í dag var líka kveikt í morgum kökum hér fyrir utan gluggann minn, þ.e. ofan á morgunblaðshúsinu/tm. Þannig að þó engir flugeldar hafi verið til í sveitinni þá er ég sátt. Ég ætlaði reyndar að fara til Indjánanna að athuga hvort þar fengjust flugeldar en fékk engan bíl lánaðan þann daginn.

Það er óhætt að segja að frumefnin hafi umlukið mig í sveitinni en eldar voru daglegt brauð, þá svona mini-brennur. Vatnið breyttist stöðugt, enda er veðrahamurinn á Cape Breton líkur þeim sem hylur okkur hér. Ég dvaldi soldið úti í skógi... sá því miður ekkert dádýr. En það er svo mikið logn í skóginum. Sólin skein líka oft og mörgum sinnum. Allaveganna finnst mér það svona í minningunni. Snjór kom og snjór fór.

Útiveran var holl og góð og tók ég þátt í ýmsum vetrarverkum eins og mokstri, skógarhöggi og byggingu hlöðu.
Eina bæjarferðin var farin að kvöldlagi inn til Sydney þar sem yngsta bróðurnum var skutlað á stefnumót. Á meðan á því stóð þurftu ökumennirnir að hafa ofan af fyrir sér og varð fyrir valinu að sjá Blood Diamond í bíó. Ágætis mynd en DiCaprio fór sérstaklega í taugarnar á mér. Síðan var tekið í spil. Cranium, Trivial og Clue voru þar fremst í flokki, en Clue-spilið kannast eflaust margir við, nema þessi útgáfa var spiluð með aðstöð dvd-disks sem gerði spilið sérlega framandi og exótískt... Sendiherrann var jólabókin í ár. Jú jú, fyrst ég er farin að tala um það þá verð ég að segja frá Drekafræði-bókinni sem var mjög forvitnileg og hver veit nema gerist drekafræðingur þegar ég verð gömul.

Að lokum læt ég fylgja með stutta vísu sem ég lærði í sjónvarpinu í Kanada (að vísu án takts og handahreyfinga):
Nausea
heartburn
indigestion
upset stomach
diarreha